29.04.1918
Neðri deild: 12. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

25. mál, lokunartími sölubúða í kaupstöðum

Flm. (Matthías Ólafsson); Jeg þarf ekki að bæta miklu við það, sem stendur í greinargerðinni fyrir þessu litla frv.

Eins og mönnum er kunnugt, samþ. síðasta Alþingi heimildarlög til þess, að gera mætti samþyktir um lokunartíma sölubúða á landinu, en þar vantaði að taka fram um sektir fyrir brot álögum þessum. Af þessu hefir stjórnin ekki sjeð sjer fært að samþykkja samþykt, sem bæjarstjórn Reykjavíkur hefir samið um lokunartíma sölubúða hjer, og af þeim ástæðum hefi jeg verið beðinn að flytja þetta frv.

Jeg vænti þess, — þótt ein eða tvær raddir kunni að hafa heyrst á móti því, — að þetta frv. fái að ganga hljóðalaust gegnum þessa háttv. deild og síðan alt þingið.

Jeg sje heldur enga ástæðu til þess að fara að skipa nefnd til þess að athuga það, því að það liggur í hlutarins eðli, að ef lög eru brotin, þá verður að finnast sektarákvæði í lögunum sjálfum við því, en með því að þau vantar eins og nú er, þá finst mjer sjálfsagt, að þessi sektarákvæði sjeu tekin upp í lögin.

Að farið sje með mál, sem rísa út af brotum á þessum samþyktum, svo sem almenn lögreglumál, finst mjer sjálfsagt.

Mjer hefir þótt viðkunnanlegra að ákveða, að viðauki þessi sje færður inn í meginmál laga nr. 79, 14. nóv. 1917, því að mín skoðun er, að svo ætti alla jafna að gera, er lögum er breytt eða viðaukar gerðir við þau. Slíkt gerir lögin aðgengilegri og veldur minni ruglingi.

Að lögin öðlist gildi þegar í stað finst mjer einnig sjálfsagt, með því að samþyktin er tilbúin, og Reykvíkingar þrá að koma henni í framkvæmd sem fyrst.

Leyfi jeg mjer svo að vænta þess, að frv. verði látið ganga sem greiðlegast gegnum þingið.