29.04.1918
Neðri deild: 12. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

25. mál, lokunartími sölubúða í kaupstöðum

Forsætisráðherra (J. M.):

Hv. flutnm. (M. Ó.) mintist á, að það gæti verið efamál hvort ekki ætti að gefa út eldri lögin og bæta þessu ákvæði inn í þau.

Jeg skal leyfa mjer að benda háttv. flutnm. (M. Ó.) á, að í þessu tilfelli væri það ekki heppilegt; í fyrsta lagi er gott að geta komist hjá því að þurfa að síma langt mál til útlanda, sem jeg býst við að þyrfti í þessu tilfelli, og í öðru lagi, þótt nauðsynlegt geti verið stundum að prenta lög upp aftur, til þess að bæta ákvæðum inn í þau, einkum ef um löng lög er að ræða, þá á það varla við um lög eins og þessi, því að þau hafa nærri því unnið sitt verk þegar reglugerð er gefin út eftir þeim.

Af þeim ástæðum vildi jeg skjóta því til háttv. flutnm. (M. Ó.), hvort hann vildi ekki taka þetta ákvæði í burt.

Svars frá háttv. flutnm. (M. Ó.) óska jeg ekki nú; það getur beðið til næstu umr.