10.05.1918
Efri deild: 16. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

25. mál, lokunartími sölubúða í kaupstöðum

Magnús Kristjánsson:

Það var hyggilegt af háttv. þm. Snæf. (H. St.), að taka það fram, að það væri ekki af niðurrifssýki, að hann er á móti brtt. minni.

Jeg sje ekki betur en að með sanni megi segja, að hjer ráði rík tilhneiging til þess að varna framgangi hvers sem er, þótt til bóta horfi.

Aðalástæðurnar fyrir mótbárum hans hljóta annaðhvort að stafa af misskilningi eða því, að hann hefir alls ekki hlustað á orð mín.

Aðalástæða hans er sú, að starfsfólkinu muni verða misboðið. En jeg þykist hafa tekið það nógu skýrt fram áðan, að einmitt starfsfólk þessara verslana hefir styttri vinnutíma en annað verslunarfólk.

Sú mótbára fellur því um sjálfa sig.

En hitt, að það sje enginn atvinnuhnekkir að útiloka verslanir þessar frá því að starfa á allra hentugasta tíma sínum, það nær engri átt. Salan mundi þar að auki færast yfir á aðra staði, sem alls ekki hafa neinn rjett til hennar.

Af því mundi leiða, að þær verslanir mundu enga tilraun gera til vöruvöndunar á þessum vörutegundum, heldur „fúska“ með þær, til óþæginda fyrir fyrri viðskiftamenn sína og sömuleiðis þá, sem færu að eiga viðskifti við þær með þessar vörutegundir.

Rök háttv. þm. Snæf. (H. St.) eru því ekki mikils virði.

Þá er háttv. þm. Ísaf. (M. T,) Honum finst með brtt. minni vera kipt fótunum undan grundvelli þeim, sem lögin byggjast á. Jeg er ekki löglærður og verð því að tala gætilega. En þó verð jeg að segja það, að hann legst alldjúpt, ef hann finnur það, að grundvellinum sje raskað.

Þar sem til þess er ætlast, að stjórnarráðið ákveði gjaldið, þá er líka til þess ætlast, að bæjarstjórnin láti í ljós álit sitt um það, hversu hátt gjaldið skuli vera. En samþyktin gengur fyrst í gildi þegar fengið er samþykki stjórnarráðsins.

Stjórnin hefir því æðsta valdið, bæði eftir lögunum og brtt, og vald hennar eykst ekkert þótt brtt. sje samþ.

En hitt er óskiljanlegt, að stjórnarráðið setji ákvæði fyrir alla kaupstaði einu, því að það liggur í augum uppi, að það getur ekki sett nein ákvæði fyr en samþykt er fengin, frá hverri bæjarstjórn fyrir sig, og getur því ekki komið til mála, að stjórnarráðið grípi fram fyrir hendur bæjarstjórnanna í þessu atriði.

Jeg get ekki sjeð annað en að þær ástæður, sem fram hafa verið færðar gegn brtt. mínum, sjéu svo lítilvægar, að þær eigi ekki að geta tafið málið. Jeg álít algerlega óþarft, að málið fari í nefnd, en skal samt ekki berjast á móti því, ef það gæti orðið fremur til þess, að málið næði fram að ganga. Það hefir einmitt komið til orða, að þingið stæði ekki lengi úr þessu, og ættu menn því ekki að tefja málin nema sem minst.

Jeg álít svo nægilegar umræður orðnar um ekki stærri mál en þetta er, og býst ekki við að taka oftar til máls um það að þessu sinni.