16.05.1918
Efri deild: 20. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

25. mál, lokunartími sölubúða í kaupstöðum

Halldór Steinsson:

Jeg sje, að önnur brtt. háttv. allsherjarnefndar fer alveg í sömu átt og jeg hjelt fram við fyrri umr. þessa máls. Það er brtt. um, að lágmark sektanna sje óákveðið, og get jeg því felt mig við hana.

En nefndin hefir ekki fallist á brtt. háttv. þm. Ak. (M. K.), en flytur í þess stað brtt., sem fer fram á, að bæjarstjórnir hafi heimild til þess að veita undanþáguna. En þar á er að eins lítill munur, úr því að undanþágan má veitast hvort sem er, og get jeg því ekki frekar sætt mig við brtt. nefndarinnar.

Jeg hefi litið svo á, sem aðaltilgangur laganna væri sá, að ákveða fastan starfstíma verslunarmanna, og sje þeim aðaltilgangi laganna raskað, með undanþágu þessari, þá er grundvöllurinn um leið eyðilagður.

En fyrst jeg tek til máls, vil jeg geta þess, að skýringar háttv. þm. Ak. (M. K.) við 1. umr. málsins hafa ekki verið rjettar að öllu leyti, þótt jeg efist ekki um það, að hann hafi haldið, að þær væru rjettar; honum hefir sjálfsagt verið skýrt rangt frá.

Jeg hefi fengið þær upplýsingar frá kaupmannafjelaginu hjer, að 85 kaupmenn hafi verið á móti, en að eins 5 eða 6 með því, að undanþágan yrði veitt.

Sömuleiðis er mjer kunnugt um það, að mesti tóbakskaupmaðurinn hjer er á móti því. Enn fremur hefir mjer verið skýrt frá því, að starfstíma verslunarmanna við flestar af verslunum þessum sje ekki öðruvísi hagað en starfstíma annara verslunarmanna.

Skýrslur þessar hefi jeg engar ástæður til að rengja, en því frekar hefi jeg ástæðu til þess að vera á móti því, að nokkur undanþága verði veitt.