16.05.1918
Efri deild: 20. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

25. mál, lokunartími sölubúða í kaupstöðum

Magnús Kristjánsson:

Jeg vil fyrst minnast á brtt. nefndarinnar. Jeg mun ekki ekki gera það að neinu kappsmáli, hvort 1. brtt. hennar nær fram að ganga eða ekki, því að munurinn á henni og brtt minni er sáralítill. Jeg gæti frekar trúað, að ekki hafi verið nákvæmlega skilin orð þau, sem orðið hafa að ásteytingarsteini móti brtt. minni.

Jeg álít, að það megi einu gilda, hvort sagt er, að „ákveða megi“ eða „ákveða skuli“ að veita undanþáguna. Í brtt. minni er það heldur alls ekki útilokað, að bæjarstjórnir fái að ráða með í þessu efni. Jeg skal því ekki eyða fleiri orðum að brtt. þessum, en hitt leiðir af sjálfu sjer, að verði brtt. nefndarinnar samþyktar, verður að samþykkja líka 2. brtt á þgskj 70.

Um ræðu háttv. þm. Snæf. (H. St.) langaði mig til þess að segja nokkur orð.

Hann hjelt því fram, að það mundi vera eini eða aðaltilgangur laga þessara, að starfstími verslunarmanna yrði alveg fastákveðinn. En jeg lít svo á, sem það sje ekki eini tilgangur laganna; að minsta kosti væri það illa ráðið, ef löggjöfin ætlaðist til þess, að starfstíminn yrði svo rígbundinn, að stórbagalegt yrði fyrir fjölda manna. En svo mundi fara, ef lögin væru eins bókstaflega skilin og þessi þm. vill vera láta.

Eins og jeg hefi áður sýnt fram á, mundi afleiðingin verða sú, ef engin undanþága yrði veitt fyrir verslanir þessar, að salan flyttist yfir á aðra staði, til kaffihúsa, mjólkur- og brauðsölustaða, og það er ekki heldur óhugsandi, að upp mundu rísa leynisölustaðir, ef það yrði lögboðið að loka búðum þessum kl. 7 að kvöldi.

En hver yrði þá ávinningurinn?

Ef til vill yrði minna selt af vörum þeim, sem hjer er um að ræða.

En hvers vegna á að meina fólki að leggja í landssjóð? Jeg sje ekki neina ástæðu til þess að berjast á móti því, að það sje gert af fúsum vilja og á jafnmeinlausan hátt og hjer er um að ræða. Þetta er því meinloka í höfðinu á háttv. þm. (H. St.), og væri henni betur burt kipt.

En sje málið rjett athugað, þá er valdboð um sama lokunartíma fyrir alla jafnbagalegt fyrir hlutaðeigendur og það, ef banna ætti bændum að slá tún sín á sumrin eða sá í garða á vorin, þar sem bannað er að stunda atvinnu á hagkvæmastan hátt, sem ekki getur heldur orðið neinum til meins.

Þá sagði sami háttv. þm. (H. St.), að jeg hefði ekki skýrt rjett frá við 1. umr. málsins.

Ef hann heldur því fram í alvöru, get jeg sýnt honum fram á það, svart á hvítu, því að jeg hefi full skilríki fyrir því, að bæði kaupmannafjelagið og verslunarmannafjelagið eru þessu hlynt. Aðrar skýrslur gaf jeg ekki.

Að 85 kaupmenn hjer hafi látið í ljós, að þeir væru þessu mótfallnir, liggur mjer við að vefengja.

En jeg veit ekki, hversu margir kaupmenn kunna að teljast hjer, ef kaupmannsheitið er notað um alla þá, sem þá atvinnu stunda. Sjálfsagt verða þeir þá margir, sem ekki er mikið tillit takandi til, og því lítilsvert atriði þetta, þótt rjett væri.

Þá hjelt háttv. þm. (H. St.) því fram, að starfstími fólks við verslanir þessar væri áreiðanlega ótakmarkaður og óheppilega langur, en jeg held enn hinu fram, að hann sje tvískiftur, að minsta kosti við flestar þessar verslanir.

Þá er viska sú, sem háttv. þm. (H. St.) hefir frá einum stærsta tóbakskaupmanni bæjarins, sem tjáir sig mótfallinn undanþágunni.

Ekki veit jeg at hverju það stafar, en líkindi eru til, að það sje af því, að hann hafi breytt um verslunaraðferð. Til að byrja með hafði hann smásölu, en hefir nú einnig heildsölu, og mun þetta ákvæði því hvorki gera honum til nje frá.

En ekki get jeg skilið, hvers vegna hann vill stjettarbræðrum sínum svo illa, að vera mótfallinn undanþágunni.

Þessar upplýsingar háttv. þm. (H St) verða því ljettar á metunum.

Jeg býst við, að nefndin fylgi fram sínum till., hvort sem háttv. þm. Snæf. (H. St.) eða aðrir leggjast móti þeim eða ekki, og jeg lít svo á, sem þær megi til bóta verða, ef þær ná fram að ganga.