01.05.1918
Neðri deild: 14. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

27. mál, stækkun verslunarlóðarinnar í Ólafsfirði

Flm. (Stefán Stefánsson):

í lögum frá 1905 eru til ákvæði um, að Ólafsfjarðarhorn skuli vera löggiltur verslunarstaður, en að öðru leyti eru ekki til ákvarðanir um nánari takmörk fyrir verslunarlóðinni.

En nú er svo komið, að Ólafsfjarðarhorn er að mestu fullbygt, og auk þess eru nú orðnar svo miklar grynningar við bryggjur þær, sem liggja fram af verslunarlóðinni, að sæta verður sjávarföllum til þess að komast að þeim með vjelbáta og jafnvel smábáta.

Þessi vandkvæði hafa orðið til þess, að Ólafsfirðingar hafa samþykt á fjölmennum þingmálafundi að fá verslunarlóðina stækkaða svo, að takmörk lóðarinnar að vestanverðu verði ákveðin beint á móti nyrðri takmörkum hennar að austanverðu. En nyrðri takmörk á þeirri núverandi verslunarlóð, sem er öll austanvert við fjörðinn, er Brimnesá, en Kotnef er beint á móti að vestanverðu. Með öðrum orðum, þá bætist álíka mikil lóð við kauptúnslóðina vestan fjarðarins og hún er nú. En strandlengjan, sem við bætist, er haganleg sem byggingarsvæði, aðdýpi gott og bátalægi, eða sú eiginlega höfn þar fram undan, en alls ekki við Ólafsfjarðarhorn, enda hefir reynslan alloft orðið sú, þegar bjarga hefir þurft bátum á legunni, að ekki var mögulegt að komast út frá bryggjum eða verslunarlóðinni vegna brotsjóa, og vjelbátar þar af leiðandi eyðilagst meira og minna árlega.

Það er því öllum sjáanlegt, hversu brýn þörf er á að bæta þessari nýju lóð við, því að þar mundu bæði koma upp hús og bryggjur á næstu árum.

Það er ekki tekið fram í þessu frv., hversu langt verslunarlóðin skuli ná frá sjó. Þetta er líklega vöntun; og þótt ekkert sje heldur ákveðið um þetta hvað snertir löggildingu Ólafsfjarðarhorns og ýmsra fleiri kauptúna, þá væri þó heppilegra að taka fram ákveðið, hversu langt verslunarlóðin skuli ná frá fjörumáli á land upp.

Jeg sje ekki ástæðu til að vísa þessu máli til nefndar, en tel rjettara, að annarhvor okkar flutningsmanna tali til Ólafsfjarðar um það, hversu langt þeim finnist að verslunarlóðin skuli ná frá sjó.

Jeg óska þess því, að frv. verði vísað til 2. umr., en sje sem sagt ekki ástæðu til að vísa því til nefndar.