03.05.1918
Neðri deild: 15. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

28. mál, fé úr landssjóði til viðhalds Ölfusárbrúnni

Flm. (Sigurður Sigurðsson):

Ástæðan til þess, að jeg kveð mjer aftur hljóðs, er sú, að hæstv. atvinnumálaráðherra hafði spurt, á hverjum sú skylda hvíldi að aðvara sýsluna, ef viðgerðar þyrfti. Þessi fyrirspurn hæstv. atvinnumálaráðh. fór fram hjá mjer, og þó að henni sje að nokkru svarað með fyrri ræðu minni, þá skal henni svarað nú ákveðið. Skyldan hvílir á landsstjórninni eða starfsmanni hennar, vegamálastjóranum, samkvæmt 11. gr. vegalaganna. Þar stendur, að stjórnarráðið eigi að hafa eftirlit með því, að flutningabrautum og þeim mannvirkjum, er þeim tilheyra og landssjóður hefir kostað í fyrstu, sje haldið svo við, að ekki gangi úr sjer. Verkfræðingur á að skoða vegina og sjálfsagt brýrnar líka, og sje um þörf á endurbótum að ræða er það hans verk að skýra sýslunefnd frá því. Þessi skoðun verkfræðings á að fara fram að minsta kosti annaðhvert ár.

Hins vegar kannast sýslunefnd fullkomlega við það, að hana beri skylda til að kosta viðgerðina, en segir, að vegna dýrtíðar o. fl. hafi viðgerðin dregist á langinn. Auk þess hafi sýslan engan mannvirkjafræðing í sinni þjónustu, en eftirlitsskyldan hvíli á landsstjórn eða vegamálastjóra, en það orðið í undandrætti hjá honum að aðvara sýslunefndina í þessu efni.

Hvað snertir athugasemd háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), þá skal jeg taka fram, að hjer er ekki farið fram á breytingu á vegalögunum, heldur að landssjóður hlaupi undir bagga með sýslunni að þessu sinni um viðgerð á brúnni. Sýslunefndin segist ekki að svo komnu máli fara fram á að ljetta viðhaldinu af sýslunni fyrir fult og alt.

Jeg verð því að halda við mína fyrri till., um að frv. sje vísað til fjárveitinganefndar.