03.05.1918
Neðri deild: 15. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

28. mál, fé úr landssjóði til viðhalds Ölfusárbrúnni

Þórarinn Jónsson:

Jeg álít ekki rjett að lengja mikið umræður um þetta mál. En mjer virðist aðalástæðan, sem háttv. flm. (S. S) færir fyrir frv., vera sú, að landsstjórnin hafi vanrækt þá eftirlitsskyldu, sem á henni hvíldi. En það virðist nú vera svo í sjálfu sjer, að hjeruðin sjálf ættu að vera til eftirlits á undan öðrum, þar sem þau ber skylda til þess að laga það, sem að er. Það stendur líka í vegalögunum, að hjeruðin eigi að geta fengið verkfróða menn til eftirlits, eða hæfustu menn, sem kostur er á. Jeg held þess vegna, að það sje ekki nema til þess að hanga í lagastafnum að segja, að eftirlitið hafi verið vanrækt af hálfu stjórnarinnar. Ef þetta gæti orðið viðurkend ástæða fyrir því, að geta heimtað fje af landsstjórninni, gæti það leitt til þess, að sýslurnar sæju sjer hag í því að draga viðgerðir þangað til þær gætu ekki eða þættust ekki geta risið undir þeim.

Annað er líka eftirtektarvert í þessu sambandi, og það er, að sýslunefnd Árnessýslu bíður þingið um heimild til þess að setja toll á umferð um brúna og ná þannig upp þeim kostnaði, er til viðhaldsins þarf. Þetta er aðalkrafa hennar til þingsins, en hitt aukakrafa, að landssjóður leggi fram fje til viðgerðar á brúnni. Og sýnir það, að hún hefir ekki talið fjárbeiðsluleiðina þá sanngjörnustu. En þessu hafa háttv. flutnm. alveg gengið fram hjá.

Meðmæli þau, sem háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) gaf frv, voru miður heppileg; það kom þá og fljótt í ljós hjá honum, að samskonar málaleitunar mundi verða að vænta úr hans kjördæmi. Ef þetta frv. yrði því samþykt, mundu fleiri koma á eftir og heimta það sama. Jeg held því, að það sje ekki heppilegt að samþykkja frv., og verði farið að breyta til í þessu efni, þá yrði það að verða á þann hátt, að landið tæki að sjer allar viðgerðir á brúm landsins, þar sem hjeruðin eftir núgildandi lögum eiga að hafa viðhaldsskylduna.

Jeg verð því að vera algerlega á móti því, að þetta verði tekið til greina.