18.06.1918
Neðri deild: 51. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

28. mál, fé úr landssjóði til viðhalds Ölfusárbrúnni

Frsm. (Magnús Pjetursson); Menn hafa sjeð af nál. till. fjárveitinganefndar í þessu máli, og er í nál. gerð grein fyrir þeim rökum, er liggja til þess, að nefndin getur fallist á, að veitt sje fje til viðhalds Ölfusárbrúnni. Og eins og nál. ber með sjer, byggir hún á till. vegamálastjóra, sem virðast hafa við rök að styðjast.

Það virtist koma fram við síðustu umr. þessa máls, að þessi mikli viðhaldskostnaður, sem nú er þörf á, stafaði af því, að sýslan hefði vanrækt viðhald brúarinnar áður. Nefndin hefir leitað upplýsinga um þetta atriði og komist að raun um, að talsverðu fje hefir verið varið úr sýslusjóði í þessu skyni. Eitt árið var t. d. varið rúmlega 1.000 kr. og árið 1916 á fjórða hundrað kr. til viðhalds brúnni.

Nú er það ekki tilætlun fjárveitinganefndar að ljetta af sýslunni þeirri skyldu, sem á henni hlýtur að hvíla lögum samkvæmt til þess að viðhalda brúnni. En þar sem viðhaldið hefir orðið svo dýrt sökum upphaflegra smíðagalla, virðist nefndinni rjett, að nú komi fje úr landssjóði til rækilegrar aðgerðar á brúnni. Vegamálastjóri hefir gefið upplýsingar um þessa smíðagalla, og eru þeir sumpart þannig vaxnir, að trjebútar hafa legið fast við járn, svo að ekki hefir verið hægt að komast að járninu til þess að halda því við og verja það ryði. Vegamálastjóri ætlar að færa þetta í lag, en getur ekki sagt með fullri vissu, hve mikið aðgerðin muni kosta. Til þess að hægt sje að komast að því, sem viðgerðar þarf, og áætla kostnað við það, þarf að rifa upp gólfið í brúnni. Vegamálastjóri giskar á, að ekki sje hægt að komast af með minna fje en 15.000 kr., ef vel á að vera.

Verði till. nefndarinnar samþykt, á Árnessýsla að greiða 5.000 kr. af þeim kostnaði, og er það fullkomlega sú upphæð, sem hægt er að krefjast af sýslunni til venjulegs viðhalds. Sýslan hefir orðið hart úti og þarf að kosta miklu fje til viðhalds vegum. Eftir frásögn vegamálastjóra nema áætluð útgjöld til viðhalds vegum í sýslunni 10.000 kr. Sjá menn, að sýslubúar hafa þar talsverðan bagga að bera, og minkar hann ekki við það, að bætt er við 5.000 krónur til viðhalds Ölfusárbrúnni.

Jeg skal taka það enn fram, þó að það standi skýrt í nál, að ekki er svo að skilja, að fjárveitinganefnd hallist að þeirri stefnu, að landssjóður styrki sýslufjelögin til viðhalds brúa þeirra, sem þeim ber að halda við samkvæmt lögum. Nefndin hefir fallist á þessa fjárveitingu einungis af þeirri sjerstöku ástæðu, að þetta getur ekki talist venjulegt viðhald.

Jeg vona, að háttv. deild samþykki till. nefndarinnar og háttv. flutnm. láti sjer það lynda, þótt nefndin fari ekki lengra en þetta, en fyrstu mun ekki hafa verið ætlast til þess, að neitt fje kæmi úr sýslusjóði til aðgerðarinnar.