18.06.1918
Neðri deild: 51. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

28. mál, fé úr landssjóði til viðhalds Ölfusárbrúnni

Sigurður Sigurðsson:

Jeg get eftir atvikum verið háttv. fjárveitinganefnd þakklátur fyrir meðferð hennar á þessu máli. Jafnvel þó að óskum okkar flutnm. sje ekki að öllu leyti fullnægt, þá þykir okkur vænt um, að nefndin hefir komist að þessari niðurstöðu.

Jeg skil það mæta vel, að nefndin ætlast ekki til þess, að um neina skyldu fyrir landssjóð til að taka að sjer viðhald brúa alment sje að ræða, þótt till. hennar verði samþykt. Til þess þyrfti lagabreytingu. En annað mál er það, hvort ekki sje ástæða til að athuga það atriði betur, ekki einungis um viðhald Ölfusárbrúarinnar, heldur og um viðhald annara stórra brúa. Satt að segja er jeg á því, að viðhald þeirra ætti að hvíla á landssjóði.

Jeg skal þó ekki fara út í þá sálma. Við flutnm. sættum okkur við meðferð nefndarinnar á málinu og erum, eins og jeg tók fram áðan, eftir atvikum þakklátur nefndinni fyrir góðar undirtektir hennar í þessu máli.