06.05.1918
Neðri deild: 17. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

31. mál, hafsaga í Reykjavík

Einar Arnórsson:

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) gat þess, að frv. þetta væri samið af hafnarnefnd Reykjavíkur og vel undirbúið, og skal jeg ekki rengja að svo sje, en mjer finst samt rjettara að vísa málinu til nefndar, og þá líklega rjettast til sjávarútvegsnefndar. (B. J.: Eða til samgöngumálanefndar). Já, það skiftir litlu til hvaða nefndar það fer. — Jeg skal til samanburðar geta þess, að það liggur hjer annað frv. fyrir þessari háttv. deild, sem hefir hlotið langan undirbúning og þó virðist talsvert athugavert. Virðist því sjálfsagt, að þessu frv. sje vísað til nefndar, og að deildin leyfi ekki neinum að reiða sig á „autoritet“ þeirra manna, sem að því hafa unnið. Jeg fyrir mitt leyti hefi ekkert á móti því, að frv. verði vísað til samgöngumálanefndar.