17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Einar Árnason:

Jeg skal vera stuttorður. Það eru nú ekki færri en 7—8 háttv. þm., sem hafa gert brtt. mínum þann heiður, að gera þær að umræðuefni. Það gleður mig, að þeim hefir þótt svo mikils við þurfa, til þess að koma þeim fyrir kattarnef, því að allir hafa þeir viljað þær feigar, nema helst háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), en dálítið fanst mjer hann kippast óþarflega við út af orðum, er fjellu hjá mjer áðan og hann tók sem einhverja vörn fyrir stjórnina. En í fátinu, sem á hann kom, misskildi hann mig algerlega. Orð mín gáfu alls ekkert tilefni til þeirra ummæla, sem hann hafði í minn garð. Hins vegar kemur mjer það ekkert undarlega fyrir, þótt honum þyki kynlegt, að jeg skuli ekki selja sannfæringu mína, ef því er svo varið, að hann ætli sjer að greiða atkv. á móti frv. af þeirri ástæðu einni, að það er frá stjórninni.

Jeg þarf ekki að eyða mörgum orðum um ræðu háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), því að það, sem hann hafði á móti till., voru 4—5 þm. búnir að segja á undan honum. Og þar sem hann hafði ekki neitt nýtt til brunns að bera í þessu máli, þá hefði hann vel getað sparað sjálfum sjer ómak og deildinni leiðindi.