27.05.1918
Efri deild: 28. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

31. mál, hafsaga í Reykjavík

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Eins og nál. á þgskj. 205 ber með sjer, ræður allsherjarnefnd, sem haft hefir mál þetta til meðferðar, háttv. deild til þess að samþ. frv. óbreytt.

Þar sem hinni miklu hafnargerð hjer í Reykjavík er nú lokið og nýtt skipulag komið á stjórn hafnarmálanna, er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að ný skipun verði gerð á hafnsögumálunum, sem standa í svo nánu sambandi við hafnarmálin.

Núgildandi ákvæði um hafnsögu í Reykjavík eru aðallega reglugerð frá 1. desember 1841 og lög frá 16. september 1893, um hafnsögugjald í Reykjavík.

Eftir reglugerðinni skipaði amtmaður — nú stjórnarráðið — hafnsögumenn eftir tillögum bæjarstjórnarinnar; eru þeir 2 og launað með hafnsögugjaldi því, sem lögin ákveða. Er það svo lágt, að hafnsagan hefir, að dómi hafnarnefndar, ekki orðið rækt sem skyldi, meðal annars af því, að hafnsögumennirnir hafa ekki haft efni á því að útvega sjer nógu vandaða báta til þess að geta farið út í skip í vondum veðrum.

Í frv. þessu er stjórn hafnsögumálanna lögð undir hafnarnefnd Reykjavíkur, og virðist það ekki nema eðlilegt og rjett. Hún á að skipa hafnsögumenn og ákveður laun þeirra, sem greiðast úr hafnsögusjóði.

Hafnsögugjöld verða ákveðin í reglugerð, er hafnarnefnd setur og stjórnarráðið staðfestir, og um framkvæmd hafnsögunnar og innheimtu hafnargjalda, sem bæjarfógeti hafði innheimtu á eftir lögunum frá 1893, verða ákvæði sett í reglugerð þeirri, er jeg gat um áðan, eða annari, sem verður til á sama hátt og hin. Ætlast er til, að hinir nýju hafnsögumenn verði látnir leggja skipum að bryggjum, flytja þau til á höfninni og inn og út úr innri höfninni.

Hið fyrirliggjandi frv. er samið af hafnarnefndinni og flutt samkvæmt ósk hennar.

Allsherjarnefndin hafði það eitt við frv. að athuga, að hún hefði kunnað því betur, að helstu lagaákvæði, sem það fellir úr gildi, hefðu verið nefnd sjerstaklega í 6. gr. þess, en telur það þó eigi svo mikilsvert, að frv. eigi að fara aftur til háttv. Nd. vegna lagfæringa á því.

Jeg leyfi mjer því, fyrir nefndarinnar hönd, að leggja til, að háttv. deild samþ. frv. óbreytt.