13.05.1918
Neðri deild: 21. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

32. mál, fræðsla barna

Sigurður Stefánsson:

Jeg mun hafa getið þess þegar frv. stjórnarinnar var lagt fyrir háttv. deild, að þótt jeg viðurkendi, að laun kennara væru alt of lág, þá mundi jeg ekki greiða atkvæði með því, að það mál yrði að þessu sinni tekið til gagngerðra breytinga, eins og stjórnarfrv. fór fram á, en það verð jeg að segja, að því síður er jeg fáanlegur til þess að greiða þessu frv. atkvæði mitt.

Mjer er nú þannig varið, að mjer er meinilla við alt kák, og þessi hækkun, sem hjer er farið fram á, er ekkert annað en kák, því að þótt laun sveitakennara væru hækkuð um 3 kr. á viku eða því um líkt, þá mundi kennarana muna næsta lítið um það.

En annars finst mjer það harla undarlegt, að menn skuli vera að koma með kákbætur á launum kennara, þegar það er á allra vitorði, að flestum skólum landsins verður lokað í haust, þar eð alþýða manna treystir sjer ekki til þess að halda þeim opnum.

Annars álít jeg, að engin trygging sje fyrir því, að betri kennarar fáist, þótt þeir fái 9 kr., í stað 6 kr. áður, og í raun og veru er þessi hækkun svo óveruleg, að þótt skólunum verði ekki lokað í haust, þá held jeg, að hún dragi skamt til þess að fá kennara, sje annars hörgull á þeim.

Það er og aðgætandi í þessu máli, að þessi hækkun er sáralítil í samanburði við það, sem sveitaskólar nú verða að borga í hækkuðu fæði kennaranna. Jeg held því, að fremur dragi það kennarana að skólunum, að þeir fá fæðið ókeypis, heldur en þessi lítilfjörlega hækkun. Jeg vil láta þess getið, að jeg tala hjer aðallega um skóla úti um landið.

Jeg verð því að álíta, að hafi hingað til verið „miskunnarlaus meðferð á kennurum“, þá sje sárlítil bót ráðin á þeirri meðferð með þessari launahækkun, en þar sem þetta hefir samt í för með sjer útgjöld fyrir hið opinbera, þá verður ekkert betra gert við frv. heldur en að fella það.

Jeg get ekki tekið undir það, sem háttv. frsm. (J. B.) sagði, að alþýðu úti um landið fyndust laun kennaranna vera nógu há. Mjer er kunnugt um, að flestir í þeim sveitum, sem jeg þekki til, telja þau vera of lág, en það má ekki liggja mönnum á hálsi fyrir það, að þeir borgi ekki hærra heldur en lögin ákveða.

Hæstv. forsætisráðherra sagði, að mestur agnúinn á fræðslustarfinu væri sá, að kennararnir væru ekki starfinu vaxnir. Þetta má vel vera, en þeir verða ekki frekar starfinu vaxnir, þó að þessi smáræðishækkun verði samþykt.

En aðalástæðan fyrir því, að jeg greiði hvorki þessu frv. nje stjórnarfrv. atkv. mitt, er sú, að mestar líkur eru til, að öllum skólum verði lokað í haust, og þá er þetta með öllu þýðingarlaust.