13.05.1918
Neðri deild: 21. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

32. mál, fræðsla barna

Forsætisraðherra (J. M.):

Það getur verið gott og fallegt, ef menn vinna eitthvert verk af kærleika til starfsins, án þess að ætlast til launa fyrir. En mjer finst þó, að það sjeu nokkuð miklar kröfur gerðar til barnakennaranna, fram yfir alla menn aðra, ef ætlast er til, að þeir geri þetta. En um þetta þýðir ekki að tala. Út frá því verður að ganga, að barnakennarar sjeu menn eins og aðrir, sem bæði vilja og verða að fá eitthvað fyrir eitthvað. Það er ekki öllum unt að gefa vinnu sína. Jeg er töluvert hissa á, að heyra þessa kenningu hjá háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.). Jeg get ekki skilið, að hann ætlist til, að vel hæfir menn veljist í þá stöðu, sem þeir vita fyrirfram að er illa launuð. Það er algild regla, sem allir þekkja, sem á annað borð vita hvað það er að ráða fólk til starfa, að ef velja á menn í stöðu, þá verður að borga þeim sæmilega, ef menn vilja fá dugandi menn, þótt ekki sje um annað að ræða en að ráða vinnumann, — með því segi jeg ekki, að vinnumannsstaðan sje óvirðulegri en hver önnur.

Nýtir menn og duglegir taka ekki að sjer atvinnu, nema þeir eigi von á góðri borgun fyrir. Það þýðir ekkert að tala um mannkosti og manndygðir í þessu sambandi. Fyrir góða vinnu ætlast menn til að fá góða borgun; hitt er undantekning, ef menn geta leyst af hendi gott starf, án þess að líta á, hvernig það er launað. Annað mál er það, ef um aukastarf er að ræða, en hjer á ekki svo að vera. Barnauppfræðslan í landinu á ekki og má ekki vera aukastarf. Það er grundvallarskekkja, sem verður að kippa í lag.

Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) mintist á það, að fræðslumálastjórinn hefði átt að koma með tillögu um breytingu á fræðslulögunum og um hækkun á launum kennara. Það er nú álit fræðslumálastjóra, að rjett sje að lofa þeim lögum að reyna sig nokkurn tíma, áður en farið er að breyta þeim. Sumir hafa skilið ræðu háttv. þm. Dala. (B. J.) fyrir skömmu á þá leið, að hann væri að ráðast á þennan árvakra og nýta embættismann, sem áreiðanlega gegnir stöðu sinni með mestu samviskusemi og dugnaði. Jeg skildi ekki ræðu háttv. þm. Dala. (B. J.) svo, því að jeg veit, að það var ekki meining háttv. þm. (B J.) að kasta að honum. Hitt sagði hann í ræðu sinni, að það ætti ekki að spyrja fræðslumálastjórann um það, hvernig fræðslulögin hafa reynst, því að hann væri höfundur þeirra. Það er nú að vísu skakt. Hann er ekki höfundur þeirra, heldur annar maður. Að sjálfsögðu mundi hver stjórn sem væri snúa sjer einmitt til hans, þess mannsins, sem langmest kynni hefir af fræðslulögunum og því, hvernig þau hafa reynst víðs vegar um landið. Jeg verð að halda því fram, að það væri alveg ómaklegt, ef nokkur hefði fært að honum, hvort heldur hjer í deildinni eða annarsstaðar. Háttv. þm. Dala. (B. J.) þarf ekki að svara fyrir sig, því að jeg skildi orð hans alls ekki á þá leið, að þau væru árás.