13.05.1918
Neðri deild: 21. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

32. mál, fræðsla barna

Forsætisráðherra (J. M.):

Að eins örlítil athugasemd út af orðum hv. þm. (H. K.). Já, það er einmitt það sorglega í þessu máli, að jafnvel sumir háttv. þm. geta ekki skilið, hvernig barnafræðsla getur verið annað en aukastörf. Hinn háttv. þm. (H. K.) virtist ekki geta skilið, að barnafræðslan væri annað. Og hann furðaði sig á því, að nokkur skyldi hugsa sjer hana öðruvísi. Má nærri geta, hvernig barnafræðslunni muni komið í landi, þar sem þetta er skoðun leiðandi manna.

Jeg ætla ekki að svara háttv. þm. Dala. (B. J.) miklu. En jeg vil segja, að ef nú á að fara að setja nefnd til þess ad athuga, hvort ekki sje rjett að sleppa öllum barnaskólum og koma fræðslunni á heimilin, þá muni sú nefnd annaðhvort sitja mjög lengi eða starfa mjög stutt. Jeg held, að þessi háttv. þm. (B. J.) standi aleinn uppi með þá skoðun, að hægt sje að hverfa aftur til heimilisfræðslu. Það þýðir ekki að rannsaka það. Á það benda svör frá mjög mörgum mönnum víðs vegar um land, að hann sje einn þessarar skoðunar. Í sambandi við það skal jeg taka það fram, aö jeg tel það ekki líklegt til mikils árangurs að skipa milliþinganefnd í þetta mál.

En þótt þetta frv., sem stjórnin flutti, verði nú ekki látið fara lengra, þá mun það koma aftur, og get jeg ekki hugsað mjer, að langur tími liði þar til þessar kröfur kennarafjelagsins, sem eru mjög svo hóglegar, fái fullan byr. Er þá leitt, að háttv. deild gat ekki fallist á þær þegar í stað, jafnvel þótt nú hefði má ske, eftir ástæðum, verið rjett að fresta framkvæmdum á þeim. Jeg man ekki til þess, að frá nokkurri stjett eða einstökum manni í landinu hafi komið eins fyllilega sanngjarnar kröfur og frá kennarafjelaginu í þessu máli.