13.05.1918
Neðri deild: 21. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

32. mál, fræðsla barna

Sveinn Ólafsson:

Jeg skal ekki lengja umr. mikið. Jeg hefi setið hjer og hlýtt á umr. þær, er fram hafa farið í máli þessu, og hafa mjer fundist þær liggja sumpart utan við verkefni vort í dag, sjerstaklega að því leyti sem þær hafa hnigið að skólafyrirkomulaginu alment. Það var hjer ekki á dagskrá, en er þó eðlilegt, að það beri á góma, þar sem þingsályktunin í fyrra gerir ráð fyrir því að það verði og tekið til meðferðar jafnhliða kennaralaunum. En sjerstaklega í þessum efnum, um fyrirkomulagið, hefir ágreiningurinn orðið óbærilegur. Einn háttv. þm. hefir þar haldið fram mjög sjerkennilegri skoðun, sem sje háttv. þm. Dala. (B. J.). Hann vildi taka upp heimafræðslu og leggja niður barnafræðslu þá, sem nú á sjer stað í barnaskólum landsins. Svo hefir virst, sem hann stæði hjer uppi einn síns liðs með þá kenningu, en svo er þó ekki. Jeg er honum að nokkru leyti sammála um þetta efni. Jeg held, að það hafi verið óheppilegt, að heimilisfræðslan var afnumin og í staðinn sett jafnófullkomin fræðsla sem farkensla í sveitum. Heimilin hafa varpað allri sinni áhyggju upp á farkennarana. En þeir þurfa að ferðast úr einum stað í annan, dvelja tiltölulega stuttan tíma á hverjum bæ, og hafa því eðlilega ekki getað komið eins miklu til leiðar og heimilin, meðan þau stunduðu daglega kenslu. Verð því að taka undir það með háttv. þm. Dala. (B. J.), að nær hefði verið að efla og styðja heimiliskenslunna í sveitum en uppræta hana, eins og sýnt er að skólafyrirkomulagið nýja gerir. Heimilin verða þó ætíð aðalþáttur uppeldisins, og enginn skóli jafnast við gott heimili. Ekki er það samt mitt álit, að fyrir því eigi að nema burt barnafræðslu eða leggja niður skóla í kauptúnum og kaupstöðum, eða þar sem þjettbýli er, heldur að styrkja beri og endurreisa heimilisfræðsluna hvarvetna í strjálbygðum hjeruðum.

Meira mun jeg ekki segja um fræðslufyrirkomulagið. Þá bagar þekkingarleysi á landsháttum að fornu og nýju, sem halda, að vandinn sje leystur með farskólafræðslu og heimilisfræðslan lítilsverð. Um það er jeg að mestu sammála háttv. þm. Dala. (B. J.).

En svo er um launakjörin, eins og það mál liggur nú fyrir. Jeg tók svo eftir, að háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) liti svo á, sem sú uppbót, er farkennarar fengju eftir frv. því, er fyrir liggur, 9 kr. á viku í stað 6 kr., væri lítilsverð. Þessu get jeg ekki samsint. Jeg held ekki, að laun þeirra sjeu minni en heimangönguskólakennara. Eftir þessari breytingu eiga þeir að fá 30 kr. á viku, eða 120 kr. á mánuði. Af þeim ganga ca. 100 kr. til fæðis og húsnæðis. En farkennarar hafa sínar 36 kr. á mánuði frádráttarlaust, fá fæði og húsnæði ókeypis.

Jeg kannast við, að laun þessi eru lítil, en þó eru þau ekki svo lítilfjörleg, að eigi sje bót frá því, sem áður var. Lítið er betra en ekki neitt. Meðan dýrtíð er í landi og allur þorri manna verður að sætta sig við þröngan kost, tel jeg ekki nema sanngjarnt og eðlilegt, að kennarar reyni að sætta sig við lág laun, og býst jeg við, að þeir geri það; þeir verða að bera sinn hluta af afleiðingum dýrtíðarinnar. Um þetta frv. verð jeg að segja, að það er mikil bót frá því, sem nú er, þótt varlega sje farið í sakirnar, og sjerstaklega held jeg, að það feli í sjer tiltölulega mikla launaviðbót handa farkennurum, sem nú eru víða að breytast í eftirlitsmenn heimiliskenslunnar og eiga að gera það.

Vona jeg þess vegna, að kensla í sveitum geti haldið áfram þrátt fyrir dýrtíðina, og með því tel jeg mikið unnið.

Það var eitt orð eða setning hjá hv. 1. þm. Reykv. (J. B), sem mjer fjell ekki vel. Hann gaf í skyn, að menn væru hirðulausir í kennaravali og veldu þá, sem væru lítt eða ekki hæfir, gerðu sjer meira far um að velja vel til þess starfs en annara, t. d. fiskdráttar eða fjárhirðingar. Jeg hefi heyrt þessu fleygt fram fyrir mörgum árum, þegar allri kenslu var mjög ábótavant, og þá kann það að hafa átt sjer einhvern stað, en nú kannast jeg ekki við, að það sje rjett, að svo sje farið að. Þar, sem jeg er kunnugur á landinu, veit jeg ekki betur en að alt kapp og áhersla sje á það lögð að fá góða kennara og koma börnunum í skóla, því að nú er sú hjátrú að verða landlæg, að skólavist sje upphaf og endir uppeldisins, þótt að eins sje 8 vikur árlega.

Mjer fanst því ekki til um stóru orðin hjá háttv. 1. þm. Reykv. (J. B) um þetta eða um ámælið til sveitamanna, sem veldu sveitalimi fyrir kennara. Þau ummæli eru villandi og óvirðandi. Ef þess eru dæmi, þá er það undantekning frá reglunni. En slík dæmi geta auk heldur verið með öllu afsakanleg. Eða hví skyldi maður, sem óhappa vegna hefir orðið sveitarþurfi, eigi geta verið hæfur til kenslu, ef hann hefir viðeigandi mentun og skilyrði til starfans?

Frekar mun jeg ekki fjölyrða um þetta eða tefja tíma.