16.05.1918
Efri deild: 20. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

32. mál, fræðsla barna

Forsætisráðherra (J. M.):

Ástæðan til þess, að þetta frv. er hingað komið, er erindi frá kennarafjelagi íslands, sem raunar kom til þingsins í fyrra, en þá var ekki sint eða tekið til athugunar. Því var svo hreyft aftur við stjórnina að bera þetta erindi fram við þingið, og var landsstjórnin því samþykk.

Það frv., sem enn er í háttv. Nd., er mikið öðruvísi. Ráðuneytið gat sætt sig við breytingar þær, sem háttv. Nd. gerði á frv. stjórnarinnar, en jeg vona, að háttv. deild athugi bæði þetta frv. og einnig það, sem er ókomið hingað. Þær bætur, sem þetta frv. fer fram á, eru betri en ekkert, en engan veginn er með þeim nægilega vel tekið í erindi kennara, sem var mjög hóflegt og átti það fullkomlega skilið að vera tekið til greina, því að jeg minnist ekki að hafa sjeð svo hóflegt erindi lagt fram fyrir hið háa Alþingi.

Jeg vil skjóta því til þessarar háttv. deildar, hvort hún sjái sjer ekki fært að verða betur við beiðni kennara en orðið er.

Svo vil jeg leggja til, að málinu sje vísað til mentamálanefndar.