18.06.1918
Efri deild: 46. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

32. mál, fræðsla barna

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Á öndverðu þingi lagði stjórnin fyrir það frv. til laga um skipun barnakennara. En mentamálanefnd Nd. sá ekki fært að leggja til, að það frv. næði fram að ganga, en kom í þess stað með þetta frv, á þgskj 121. Mentamálanefnd þessarar háttv. deildar hefir að vísu að eins átt að athuga þetta frv., en þó hefir hún jafnframt athugað hitt og fallist á skoðun Nd. um það. Skal hjer ekki nákvæmlega farið út í það, en yfirleitt þótti nefndinni of mikill kostnaður vera því samfara og tímar og ástæður of erfiðar nú til þess, að það frv. verði að lögum að þessu sinni. Hins vegar ræður nefndin til, að þetta frv. nái fram að ganga, þótt ánægð sje hún ekki með það, og skírskota jeg í því efni til nál. á þgskj. 361, en vil að eins bæta við fáeinum atriðum til skýringar.

Það er með sannindum sagt, að tímarnir, sem vjer lifum á, sjeu erfiðir til kostnaðarauka bæði fyrir landssjóðinn, einstök hjeruð og allan fjölda einstaklinga þjóðarinnar. Enda er kaup það, sem kennarar fá nú af hálfu hins opinbera, svo lítið, að vart verður af því lifað. Það er líka vitnað til þess, þar á meðal í nál. Nd., að kennarar starfi nú víða lítið að kenslu, heldur fái sjer eitthvað arðvænlegra að starfa. Það er nú að vísu annars vegar vorkunn, að erfitt þyki á þessum tímum að gjalda hærra kaup fyrir störf, sem ekki eru unnin, en hins vegar liggur sú alvarlega hætta fyrir dyrum, að kennarar margir hætti til fulls við kenslustörf, ef þeir geta fengið eitthvað arðvænlegra, og jafnframt er mjög líklegt, að það verði efnilegustu og duglegustu mennirnir, sem hverfa frá kenslustörfunum. Oss virðist því, þegar einu sinni er komin hreyfing á málið í þinginu, að ekki sje hægt að skilja svo við það, að þingið veiti enga úrlausn.

Með frv. þessu þykir oss þá líka nokkur úrlausn vera gerð og þó nokkur bót að því, þótt hún kunni ekki að þykja fullnægjandi og koma nokkuð misjafnlega niður. Fyrir kaupstaðakennara verður væntanlega lítil bót að því, því að kaup þeirra allra mun nú vera orðið fullkomlega svo hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, og hjá mörgum hærra. Aftur á móti verða farkennarar vel úti samkvæmt frv. Þeir fá mikið af kaupi sínu í fríðu, það er að segja frítt fæði og húsnæði, sem er notadrýgra nú Og þegar svo krónutalið hækkar nokkuð, má segja, að þeir verði vel úti.

Nú kann að verða sagt, að með þessu sje kaupstaðakennurunum gert lægra undir höfði, en það er þó sú bót, að bæjarstjórnir hafa þegar nokkuð bætt kjör þeirra, eins og jeg gat um.

Þá leggur nefndin til, að frv. verði samþykt með þeirri breytingu, að þátttaka landssjóðs í greiðslu launahækkunar kennara veiði hlutfallslega meiri en gert er ráð fyrir í 2. gr. frv., eða að landssjóður greiði 2/3 hluta af launahækkun kennaranna samkvæmt 1. gr.

Nefndin álítur alls ekki fært að leggja allan kostnaðaraukann á sveitarsjóðina, því að þeir hafa nú þegar margir svo þungar byrðar, að þeir rísa ekki undir þeim. Og þar sem skólahaldið er dýrt, þó að misjafnt sje í hinum ýmsu sveitum, þá yrði þetta alt of mikil viðbót á sveitarsjóðina Hlutfallið milli hækkunarinnar, sem kæmi á landssjóðinn, ef till. okkar og frv. sjálft yrði samþykt, yrði svo, sem nú skal sýnt fram á.

Samkvæmt skýrslu fræðslumálastjóra er kennarakaup á öllu landinu við skóla kr. 46.385, en í fræðsluhjeruðum kr. 58.544. Hækkunin yrði þá eftir frv. við skóla um 2/3, þ. e. kr. 30.923, og í fræðsluhjeruðum um ½, þ. e. kr. 29.272, eða samtals kr. 60.195.

Af þessari hækkun kæmi eftir frv. á landssjóð:

Fyrir skóla kr. 6.550

Fyrir farkenslu — 9.700

Samtals kr. 16.250

Alt hitt kæmi á sveitarsjóðina, eða kr. 43.945.

Nú er það tll. okkar, að landssjóður greiði 2/3 af hækkuninni og sveitarsjóðir 1/3. 2/3 hlutar af kr. 60.195 eru kr. 40.130. Mismunurinn yrði þá kr. 20.065, sem er sannarlega nóg byrði á sveitarsjóðina, og við sjáum ekki annað fært en þessu verði þannig hagað. Og þótt allur kostnaðaraukinn hefði verið lagður úr landssjóði, sem tveir af oss nefndarmönnum að minsta kosti hefðum helst viljað leggja til, þá var með því ekki farið fram úr því, sem fjárlögin gera ráð fyrir. Þar hefir jafnan staðið, að landssjóður mætti greiða alt að helmingi kostnaðar við skólahaldið, en fjárveiting aldrei hrokkið.til að greiða nema 1/4.

Jeg vil enn fremur sjerstaklega benda á það, að þar sem í frv. er ákveðið, að landssjóðsstyrkurinn hækki að tiltölu við það, sem fræðslukostnaður fræðsluhjeraðanna eykst, þá er sá kostnaður annar og fleira en kennarakaupið og verður þess vegna eftir frv. hækkunarhlutfallið úr landssjóði því minna sem kostnaðurinn við einn skóla er meiri, eða með öðrum orðum því minni þátttaka landssjóðs, því meira sem skólinn þarf í rauninni á fjárstyrk að halda. Úr þessu bætir till. vor nokkuð.

Jeg hefi þá tekið fram aðalatriðin, sem jeg áleit sjerstaklega þurfa skýringar við, og legg svo brtt. okkar fyrir háttv. deild, í fullu trausti þess, að deildin samþykki hana.