21.05.1918
Efri deild: 23. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Magnús Torfason:

Jeg vil að eins geta þess, jafnframt því sem jeg sting upp á, að frv. verði að umr. lokinni vísað til bjargráðanefndar, að þetta mál mun vera fullsnemma fram borið hjer í deildinni og yfirleitt í þinginu. Jeg lít svo á, að þetta mál og önnur því skyld eigi að afgreiða seinast af öllu. Eftir því, sem tíminn líður, verða framtíðarhorfurnar ljósari. Eins og hv. þingdm. er kunnugt, er enn ekki sjeð fyrir endann á bresku samningunum. En á meðan þinginu er ekki kunnugt um, hvernig þeim reiðir af, er hreint og beint rangt að afgreiða þetta mál. Vildi jeg mælast til þess, að sjeð verði um, að þetta verði með síðustu málunum, sem afgreidd verða frá þinginu. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg hafi neitt sjerstakt við frv. að athuga; jeg álít einmitt kjarna þess góðan. En við þann kjarna mun þurfa að auka tiltakanlega, ef ekki rætist betur úr bjargráðaatburðum manna en nú er útlit fyrir.