25.05.1918
Neðri deild: 31. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

41. mál, skemmtanaskattur

Gísli Sveinsson:

Jeg er dálítið smeykur við slík ákvæði í löggjöfinni sem þau, er hjer ræðir um, ekki síst í þeirri mynd, sem þau koma í frá háttv. nefnd.

Það er ekki ófyrirsynju, þótt frv. komi fram, sem beinast að því að leggja skatt á kvikmyndasýningar og aðrar opinberar myndasýningar. Ekki af þeirri ástæðu, að menn líti saklausar skemtanir öfundarauga, heldur vegna þess, að kvikmyndasýningar þróast hjer svo vel og hafa svo miklar tekjur, að nærri liggur að taka eitthvað af þeim tiltölulega mikla gróða, er þeim fellur í skaut. Og í annan stað hefir mönnum þótt nóg um aðstreymið að þessum sýningum, ekki hvað síst af unglingum og alþýðu fólki, er menn ekki vita til að hafi svo mikið fje milli handa, að því sje kleift að sækja slíkar skemtanir, jafnvel oft á viku eða kvöld eftir kvöld. Það gæti því verið vit í því, að hafa eftirlit með aðsókninni. Sýna hlutaðeigendum fram á, að hið opinbera á að hafa hönd í bagga og taka dálítinn hlut af tekjunum. Þykir mjer því rjett, að gjaldi þessu sje komið á og bæjar- og sveitarfjelögum sjeu veittar nokkrar tekjur með því.

Lengra vil jeg ekki fara. Sumstaðar erlendis veit jeg til að hefir verið lagður á, til bráðabirgða eða um lengri tíma, svo nefndur „Luxusskattur“, sem þó nær skemra en háttv. nefnd leggur til að hjer sje farið. Eftir tillögu nefndarinnar eru allar skemtanir skattskyldar. Það er reglan, að heimilt sje að leggja skatt á allar skemtanir, hvort sem þær eru fræðandi, í góðgerðaskyni, vísindalegar eða þá aðrar og saklausar skemtanir. Varnagli er ekki fyllilega sleginn með því, að með reglugerð megi undanskilja ýmsar skemtanir skattinum. Þessu get jeg ekki verið fylgjandi. Jeg vil ekki ofurselja allar skemtanir undir einræði sveitar- og bæjarstjórna. Það er alkunnugt, að ýmsir menn bera misjafnan hug til allra skemtana, þótt saklausar sjeu. Það geta verið þeir menn í bæjarstjórn eða hreppsnefnd, er líta allar skemtanir óhýru auga, nema bróðurparturinn af ágóðanum renni til sveitarfjelagsins. Slíkt alræði, um skattálögu allra skemtana, væri óþolandi.

Skattheimildin á því að vera takmörkuð; það þarf að fastákveða, hverjar skemtanir skuli undanþegnar skattinum. Og þessi takmörk voru einmitt sett í frv. af háttv. flutnm. (J. B.) Reyndar hafði skotist yfir að undanþiggja höggmyndasýningar, og einnig er ástæða til þess, ef skattur á að leggjast á skemtanir yfirleitt, að undanskilja leiksýningar.

Þó getur verið vafamál, ef ganga á inn á þessa braut, hvort gefa eigi annað en heimild. Undir þessu nafni væri sem sje hægt að halda sýningar, er væru lítt fræðandi eða uppbyggilegar, heldur að eins gróðafyrirtæki.

Best mundi jeg fella mig við, að í lögunum væri ákveðið ótvírætt, hverjar skemtanir skuli undanþegnar skattinum. Jeg vil ekki fara lengra en frv., en þykir ekki viðlitamál að ganga inn á þá braut, sem nefndin vill fara.