25.05.1918
Neðri deild: 31. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

41. mál, skemmtanaskattur

Bjarni Jónsson:

Jeg hlýt að viðurkenna, að nefndin er mjög góðlátleg í tilsvörum. Þó get jeg ekki fallist á skoðun háttv. frsm. (E. A.), að það mundi koma ranglega niður, þó að skattur verði lagður á hreinan ágóða af skemtunum, í stað þess að leggja gjald á aðgöngumiða. Getur verið, að þeim sjerstöku skemtunum, er hann mintist á, komi betur að fá að hækka aðgöngueyrinn. En það mun hann játa, að þá mundu margar hollar skemtanir verða að leggjast niður. Stofnunum, sem kvikmyndahúsunum hjer, er sýna kvöld eftir kvöld daðursögur og innbrotsþjófnað, mundi þetta ekki gera neitt til. Þær draga altaf að sjer húsfylli, og sama mundi uppi á teningnum, þó að aðgöngueyrir yrði hækkaður um 10 aura eða svo. En skatturinn yrði tekinn úr vasa þess fólks, sem bærinn þyrfti að styrkja, og hefðu peningarnir þá að eins vasaskifti, eins og jeg hefi áður drepið á.

Jeg var staddur í Kaupmannahöfn er samskonar skattur var leiddur í lög þar. Var 10 aura skattur lagður á 35 aura aðgöngumiða, og fældi það engan frá sýningunum, þótt miður sjeu þær sóttar þar en hjer, því að það verð jeg að segja frændum vorum við Eyrarsund til lofs, að þeir sækja góðar skemtanir betur en vjer.

Svo að jeg víki að söngskemtunum, þá mun bærinn taka alt að 15% af þeim, er þær halda, og nemur það oft miklu fje. Er það alltilfinnanlegt gjald á söngmönnum, er varið hafa fje og tíma í nám sitt og koma síðan til að láta menn heyra list sína. Það væri líkara stórri sekt eða gjaldi fyrir eitthvert afbrot, sem þeir hefðu drýgt með því að láta menn verða listar sinnar aðnjótandi.

Ætti því að banna með öllu að leggja á slíkar skemtanir. Það er gagnslaust að heimila bæjarstjórnum að veita undanþágur frá lögunum, eins og háttv. þm. V. Sk. (G. Sv.) tók fram. Það gæti orðið til þess að ofurselja allan vísi til lista geðþótta sveitar- og bæjarstjórna. Ef ein bæjarstjórn kveðst t. d. ekki vilja hafa myndir af skapanornunum eða örlögum guðanna á fótstalla Ingólfslíkneskisins, þá má nærri geta, hvernig færi, ef leggja ætti saklausar skemtanir undir dóm þeirra manna, sem útþandir eru af sjálfsþótta og heilagleikshroka innra trúboðsins eða þ. u. 1.

Það er ekki nema sjálfsagt að leggja skatt á daðursýningar. En alt, er telst til lista, verður að skilja undan og banna sveitar- og bæjarstjórnum að leggja nokkurn skatt á þær skemtanir. Vil jeg skora á háttv. nefnd að breyta frv. þannig.