25.05.1918
Neðri deild: 31. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

41. mál, skemmtanaskattur

Forsætisráðherra (J. M.):

Mjer virðist frv. ekki breyta miklu frá því, sem nú er, því að nú hefir bæjarstjórn og lögreglustjóri vald til þess að ákveða gjald af öllum opinberum skemtunum, er haldnar eru hjer í bæ. Frv. gerir ekki annað en að takmarka þetta vald. Nú er það óbundið, og lögreglustjóri og bæjarstjórn geta lagt miklu hærragjald á allar skemtanir, ef þau vilja. Mjer virðist ekki rjett, að Alþingi geri annað frekara en að setja þessu valdi einhver takmörk.

Eftir skoðun háttv. þm. Dala. (B J.) ætti þingið ekki að gefa lög, er ýttu undir þetta vald, heldur banna að neyta þess, nema gagnvart einstöku skemtunum. En þá er álitamál, hvort það kæmi ekki fullnærri rjetti sveitarstjórnanna.

Jeg ætla brtt. nefndarinnar skynsamlegar, og mun varla ástæða að óttast það, að sveitar- og bæjarstjórnir misbeiti þessu valdi sínu. Jeg get talað um þetta af kunnugleik, frá því er jeg var bæjarfógeti í Reykjavík, og hygg jeg, að hvorki jeg nje bæjarstjórnin hafi beitt neinn mann ósanngirni í þessu efni. Jeg veit og til þess, að víðar í kaupstöðum hefir skattur verið lagður á opinberar skemtanir, og man jeg þess eigi nein dæmi, að hann hafi keyrt úr hófi.

Held jeg því, að þetta sje óþörf hræðsla hjá háttv. þm. Dala. (B. J.). (B. J.: Hefir hæstv. forsætisráðherra nokkurn tíma, meðan hann var bæjarfógeti, lagt skatt á listsýningar ?). Að vísu var lagður skattur á listir, svo sem samsöngva, hljómleika og fleira, en það kom einatt fyrir, er fátækir menn efnilegir áttu í hlut, að skattgjaldið var eftir gefið að miklu eða öllu.

Annars verð jeg að segja, að þótt skattur væri lagður á samsöngva slíkra manna, eins og háttv. nefnd stingur upp á, þá yrði það alls ekki þeim tilfinnanlegt. Það hefir sýnt sig, að alstaðar, þar sem slíkir skattar hafa verið settir, minkar aðsókn að vísu stundum í bili, en svo sækir þegar í sama horfið; aðsóknin eykst aftur. Og jeg held, að svona skattur á aðgöngumiða sje langrjettasti og skynsamlegasti skatturinn, því að þessir föstu skemtistaðir, sem bilið er að minnast á, kvikmyndahúsin, borga bæði tekjuskatt og aukaútsvör.

Jeg vil því mæla með brtt. háttv. nefndar. Þær fara víst mjög nærri tilgangi frv. og eru að mínu viti skynsamlegar.