26.06.1918
Efri deild: 51. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

41. mál, skemmtanaskattur

Frsm. (Magnús Torfason):

Eins og háttv. deildarmenn sjá, hefir allsherjarnefndin hjer leyft sjer að gera allmiklar breytingar við frv. þetta frá því sem var, er það kom hingað í deildina. Eins og það kom hingað í deildina, á þgskj. 240, var ákveðið, að talsvert af skemtunum skyldi vera skattfrjálst. Nefndinni þótti rjettara að leggja þetta á vald bæjar- og sveitarstjórna og gera skattálagninguna að reglugerðaratriði. Undantekningar frá skatti mundu bæjarstjórnir og hreppsnefndir veita, að því er snertir þær skemtanir, sem vitanlegt væri um að haldnar væru í einhverjum þörfum og nytsömum tilgangi. En sjálfsagt væri að veita undantekningar ávalt þegar svo stæði á.

Samkvæmt þgskj. 240 eiga leiksýningar að vera skattfrjálsar. Jeg býst við, að sama yrði oftast raunin á, þótt brtt. yrði samþykt, en það geta líka komið fyrir þau tilfelli, líka hvað leiksýningar snertir, að skatt eigi að leggja á þær. Það hefir t. d. komið nokkrum sinnum fyrir, að útlendir leikendur hafa komið til landsins og rakað saman fje. Jeg sje ekki, að það væri rjett að láta þá vera undanþegna skatti. Eins og frv. var upphaflega orðað, var að eins gert ráð fyrir því, að skatturinn yrði tekinn af lifandi myndasýningum svokölluðum. Nefndin hjerna álítur, að þetta eigi að vera sjálfsagt reglugerðaratriði, eftir því sem hagar til á hverjum stað. Nd. nefndin gerði og ráð fyrir undanþágum, og átti dómsmálaráðherra að skera úr. En mun rjettara er að trúa bæjarstjórnum og hreppsnefndum fyrir því að ráða fram úr þessu í hvert sinn.

Eins og frv. var upphaflega, var ætlast til þess, að skatturinn gengi til almennra þarfa bæjar- og sveitarsjóða. En síðan kom til orða, að skattinum yrði varið til guðsþakka, eða til að styðja listir og vísindi. Nefndin hefir fallist á þetta, en ekki viljað ganga lengra en gert er í 2. brtt., b.-lið, þar sem mælt er svo fyrir, að skattinum megi ekki verja til venjulegra sveitarþarfa, eða til að draga úr byrðum skattgreiðenda. Bæjarstjórnum og hreppsnefndum er í sjálfsvald sett — að öðru leyti — hvað þær gera við skattinn, og verði ekki í annað hús að venda með hann, þá geta þær ánafnað ellistyrktarsjóðnum hann. — Skemtanir voru oft áður haldnar í guðsþakkaskyni, svo sem til líknarstarfsemi, eða þá til að styðja nauðsynleg fyrirtæki. Svo er þetta líka víða enn. Þó eru sumir nú á síðustu tímum farnir að gera sjer skemtanafýsn almennings að atvinnu og það með góðum árangri. Og það er sannarlega kominn tími til að skattleggja slíka atvinnu. Eðlilega verður slíkum skatti varið í margháttuðum tilgangi, og sjálfsagt mörg guðsþakkafyrirtæki, sem vilja verða hans aðnjótandi. En jeg sje ekki neitt annað heppilegra en að láta sveitar- og bæjarstjórnir ráða því, hverjir eigi að njóta skattsins.

Annað fleira hefi jeg ekki að segja um brtt. nefndarinnar. Að eins skal jeg benda á það viðvíkjandi 5. gr., að brtt. við hana er fram komin vegna þess, að það er sýnilegt, að lögin geta ekki öðlast gildi 1. júlí 1918, eins og ákveðið er í Nd. frv.