28.06.1918
Efri deild: 53. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

41. mál, skemmtanaskattur

Magnús Kristjánsson:

Það er ekkert stórmál, sem hjer liggur fyrir, og því í sjálfu sjer ekki mikið um það að segja, en þó kemur fram hjer mikill stefnumunur.

Nefndin og hæstv. fjármálaráðh. vilja láta það vera lögbundið, hvernig eigi að verja þessum skatti, en jeg, og væntanlega fleiri háttv. þm., er því algerlega mótfallinn. Jeg vil ekki taka með annari hendinni, það sem jeg gef með hinni, og því er jeg á móti því að lögbinda þetta, og jeg tel það heppilegast, að þingið fari sem allra varlegast í að takmarka vald sveitarstjórnanna að ástæðulausu.

Jeg skil ekki, hvernig menn fara jafnmikið og nú er gert að tala um sjálfstæði, þrælabönd o. s. frv., en vilja á sama tíma gera alt það, sem unt er, til að gera sveitarstjórnir sem ósjálfstæðastar. Sveitarstjórnirnar eru þó best færar til að ráða fram úr málum sínum það gerir meðal annars innbyrðis kunnugleiki þeirra, og jeg sje ekki, hví þær ættu að vera ófærari til að ráða því, hvernig hagfeldast er að notfæra þennan skatt, fremur en aðrar tekjur sveitarfjelagsins. Ef þær færu illa með þetta vald sitt, þá geri jeg fastlega ráð fyrir, að stjórnarráðið mundi taka í taumana.

Samkvæmt þessum skilningi, að takmarka sem minst vald sveitarstjórnanna, þá er brtt. til bóta.

Við skulum gera ráð fyrir, að skatti þessum yrði einhversstaðar varið í almennar sveitarþarfir. Það er til að ljetta undir með hæstu gjaldendunum, segir nefndin, en gæti þá ekki staðið svo á, að hin síðustu ár hefði orðið að tefla fulldjarft og að nota út í æsar gjaldþol einstaklinganna ? Og ef svo væri, er það þá nokkurt ódæmi, þótt þessu fje væri að einhverju leyti varið til að bjarga mönnum í vandræðunum?

Gamanyrði verð jeg að telja það, að finna það að þessu, að skemtanaskatturinn yrði við hliðina á hundaskattinum í reikningum sveitarsjóðanna. Á það getur enginn lagt áherslu.

Brtt. miðar að því, að sveitarstjórnirnar hafi sem frjálsastar hendur, en nefndin vill draga sem mest úr valdi þeirra. Þetta er meiningamunurinn. Hann er ljós, og jeg er ekki í neinum efa um, að stefna sú, er kemur fram í brtt., er hollari fyrir þjóðfjelagið.