05.06.1918
Efri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Fjármálaráðherra(S. E.):

Ástæðan til þess, að landsstjórnin bar þetta frv. fram, var sú, að lánbeiðni, sem heimiluð er í núgildandi lögum, virtist lítt glæsileg. Lánbeiðnir komu fram, sem námu alls ca. 2 miljónum, enda vaxtakjörin svo góð, að þau freistuðu manna til þess að taka lánin.

Ef lánbeiðnir þessar hefðu verið teknar til greina, þá stæði landssjóður nú hallari fæti en hann þó gerir. Dýrtíðin er nú að vísu meiri en í fyrra, og kjör almennings því örðugri, en þó verður að sníða stakk eftir vexti og hlaða ekki svo miklu á landssjóðinn, að honum verði um megn.

Bjargráðanefndin í háttv. Nd. vildi fara gömlu lánaleiðina, en vildi hins vegar takmarka hana svo, að eigi yrði lánað meira en 20 kr. á hvern mann að meðaltali, eða alls um 1.800.000 kr., ef lánsheimildin yrði brúkuð til fulls, en styrkur sá, sem ætlaður er samkvæmt þessu frv., gæti mest orðið 450 þúsund kr.

Það heyrðist á háttv. framsm. (S. F.), að honum virtist hjálpin nokkuð lítil. En ef vel er að gáð, sjest, að hjálpin, sem heimiluð er í frv. stjórnarinnar, er alls ekki svo lítil. Hugsum okkur sveitarfjelag með 300 íbúum. Úr landssjóði mundi það fá 1.500 kr.; á móti mundi koma frá sjálfu sveitarfjelaginu 3.000 kr.; það væri samtals 4.500 kr. handa þessari litlu sveit. Hugsum okkur svo, að tíundi hver maður í sveitinni væri hjálparþurfi, með öðrum orðum, 30 manns. 4.500 kr. er ekki svo lítill styrkur handa 30 mönnum. Það væri góður styrkur í dýrtíðarvandræðunum. En það, sem jeg vil leggja aðaláhersluna á, er, að með þessu fyrirkomulagi er áhætta landssjóðs algerlega takmörkuð. Það kveður við nokkuð annan tón í brtt., sem hjer eru á ferð. Háttv. frsm. (S. F.) sagði, að brtt. væru í raun og veru ekki eins miklar og fyrst virtist. En þær eru í sannleika miklar. Nefndin vill fara bæði lána- og styrktarleiðina.

Eftir brtt. er fyrst heimilað að veitá hverju sveitarfjelagi lán, sem nemur 10 krónum á mann. Ef gert er ráð fyrir, að lán þessi verði veitt öllum sveitar- og bæjarfjelögum á landinu, nemur það 950 þús. krónum. En það, sem veitt er umfram þessar 10 kr. á mann, á að hálfu að veitast sem lán, en að hálfu sem óafturkræfur styrkur úr landssjóði. Engin takmörk eru sett fyrir því, hve háan styrk megi veita úr landssjóði. Það sýndi sig síðastliðinn vetur, að aðsókn var mikil að lánum úr landssjóði, og ekki mundi aðsóknin verða minni, ef slíkar brtt. yrðu samþ. sem þessar. Mun þá verða erfitt fyrir stjórnina að gera upp á milli umsóknanna. Í nál. er talað um, „að aðgangur vel stæðra sveitar- og bæjarfjelaga að landssjóði til dýrtíðarhjálpar sje alt of auðveldur“ eftir frv. stjórnarinnar, en jeg fæ ekki sjeð, að betur sje um hnútana búið í brtt. nefndarinnar, nema síður sje. Hjálparbeiðni eiga reyndar að fylgja „skilríki fyrir því, að ekki hafi fengist nægilegt lán hjá bönkum eða öðrum lánsstofnunum“. En ef bönkunum er kunnugt, að til er annar banki fyrir sveitar- og bæjarfjelögin, nefnilega landssjóður, mun þeim torsótt að fá lán í bönkunum, en mun þá vísað til landssjóðsins. Bankarnir munu auðvitað enga samvisku hafa af að vísa frá sjer, þegar þeir vita, að til er slíkt lagaákvæði. Þetta sýnir reynsla síðasta vetrar. Þá gat Reykjavíkurbær ekki fengið 100 þús. kr. lán hjá bönkunum, og stafaði það vafalaust meðfram af því, að talið var, að bæjarfjelagið ætti vísan aðgang að landssjóði.

Tökum nú Reykjavíkurbæ sem dæmi um það, hvernig brtt. nefndarinnar yrðu í framkvæmdinni. Fyrst hefði bærinn kröfu til að fá lán, sem næmi 10 krónum á nef; hjer má gera ráð fyrir 16 þús. íbúum; yrðu það því 160 þús. krónur. Auk þess ætti bærinn heimting á jafnháum styrk og lánið næmi, sem hann tæki umfram þessar 160 þúsundir. Það væri mjög vafasamt, hve hátt stjórnin ætti að fara með það lán í brtt. eru engin takmörk, sem hægt væri að fóta sig á. Það ætti því að vera öllum þingheimi augljóst, að hjer er opnaður miklu víðari og greiðari aðgangur að lánum og styrkveitinguna úr landssjóði en gert er í frv. stjórnarinnar.

Jeg held, að takmörk, eitthvert hámark fyrir styrkveitingunni, sjeu sjálfsögð. Hitt þarf ekki að tala um í þessu sambandi, þótt hámarkið sje ekki sett svo hátt, að styrkurinn geti forðað frá hungursneyð. Um hungursneyð þarf engar reglur. Hvaða stjórn sem er mundi skoða það sem heilaga skyldu sína að hjálpa einstökum hjeruðum, sem hungursneyð vofði yfir, hvað sem það kostaði, hvort sem til væri fyrir því nokkur formleg lagaheimild eða engin. Þessi lög á ekki að setja vegna hungursneyðar, heldur til þess að ljetta undir með mönnum í dýrtíðinni og koma í veg fyrir verulega neyð. Hámark er nauðsynlegt að setja fyrir hjálpinni, og að leggja slíkt mál að öllu leyti án takmarkana í hendur stjórninni, er ekki á neinn hátt rjett. Auk þess, sem það er að leggja fjárveitingavaldið í hendur stjórninni, þá er það rangt að því leyti, að stjórnin mundi verða umsetin af alls konar lánbeiðnum.

Að svo stöddu skal jeg ekki fara fleiri orðum um brtt. háttv. nefndar, en ráða vildi jeg háttv. deild til þess að fella þær.