03.07.1918
Neðri deild: 62. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

41. mál, skemmtanaskattur

Magnús Guðmundsson:

Úr því að háttv. frsm. (E. A.) er ekki við, skal jeg leyfa mjer að lýsa yfir því, að jeg býst ekki við, að nefndin hafi neitt á móti því, að málið sje tekið út af dagskrá, ef það kemur bráðlega aftur til umr. Annars hefði verið nægilegur tími fyrir háttv. þm. að koma með brtt. nú, því að nál. allsherjarnefndar kom í fyrradag, og gátu menn vel verið búnir að kynna sjer það síðan og skrifa brtt.

Annars er mjer það ekkert kappsmál, hvort málið er tekið út af dagskrá eða ekki, en þess skal jeg geta um efni málsins, að það getur verið vafasamt, hvort það er nokkuð heppilegt að setja í lögin föst ákvæði um það, hvaða skemtanir skuli undanþegnar skattinum. Þótt sagt sje í lögunum, eins og stóð í frv., er það fór hjeðan úr deildinni, að skatturinn skuli lagður á skemtanir, aðrar en þær, sem einvörðungu eru söngskemtanir eða reglulegar leiksýningar eða myndasýningar, þá getur verið vafasamt, hverjar samkomur geti einvörðungu heyrt undir slíkt, og getur því úrskurður um það einnig fallið undir sveitar- og bæjarstjórnir. Og af því að allsherjarnefnd þessarar háttv. deildar komst að því, að allsherjarnefnd Ed. vildi alls ekki mæla með frv., eins og það kom hjeðan, þá gerði hún tillögu um það að samþykkja frv., eins og það liggur nú fyrir, og vil jeg mæla með því, að sú tillaga verði samþykt.