03.07.1918
Neðri deild: 62. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

41. mál, skemmtanaskattur

Jörundur Brynjólfsson:

Háttv. þm. V. Ísf. (M. Ó.) taldi það lítinn höfðingskap að taka með annari hendi það, sem gefið væri með hinni, og er það rjett, og jeg veit ekki til þess, að bæjarstjórnin hafi í þessu tilfelli gert það. En hinn háttv. þm. (M. Ó.) hefir nú verið búsettur hjer í nokkur ár, og engar raddir hafa heyrst frá honum, heldur en öðrum, um það að styrkja fjelagið betur. En jeg efast ekki um það, að ef slíkar raddir hefðu komið fram, hefði leikfjelagið verið betur styrkt. Og þótt frv. þetta yrði samþ. með breytingum, væri ekki úr því böli bætt, er háttv. þm. (M. Ó.) nefndi. Og víst er það, að úr böli skapa menn aldrei gæfu, eins og hann virtist vilja gefa í skyn. Annars skal jeg benda á það, að þyki bæjar- eða sveitarstjórnum þessi lög eða ákvæðin um það, hvernig skattinum skuli varið, ótæk, þá leggja þær vitanlega aldrei gjald á nokkra skemtun.

Vona jeg, að frv. verði samþ. óbreytt.