13.05.1918
Neðri deild: 21. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (6)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Frsm. meiri hl. (Pjetur Jónsson):

Nefndarálitið hefir verið gert svo ítarlegt, að meiri hl. hefir eiginlega ekki mikið fram að leggja umfram það, sem þar stendur, en þó álít jeg rjettara að víkja dálítið að hinum einstöku brtt, sem meiri hl. leyfir sjer að bera fram á þgskj. 88.

Í 2. gr., sem við köllum, þ. e. í 2. lið brtt., er reynt að skilgreina orðin „veruleg neyð“, eða hvað meint sje með þeim í þessum lögum. Þessa fanst okkur full þörf, því að reynslan hefir sýnt, að þau hafa verið skilin á annan veg en Alþingi í fyrra ætlaðist til. Það ætlaðist ekki til, að dýrtíðarlánin yrðu lán til að „spekúlera“ með, og það ætlaðist ekki til, að þau yrðu veitt nema þar, sein verulega krepti að sveitarfjelögum sem heild. Jeg var þá í nefndinni, sem gerði frumtill. í þessu máli, og stílfærði greinina að því er þessi orð snertir.

Í frv. stjórnarinnar er tekið fram, að dómur sveitarstjórna skuli gilda fyrir því, hvað „veruleg neyð“ sje, en reynslan hefir sýnt, að „dómur sveitarstjórna“ er ekki eins ábyggilegur og þingið ætlaðist til, þar sem lánbeiðnir hafa komið, sem nema um 2 milj. kr., til stjórnarinnar, og þó hefir hún ekki orðið vör við, að „veruleg neyð“ hafi neinsstaðar staðið fyrir dyrum. Og þess höfum við, nefndarmenn, ekki heldur orðið varir, þótt við höfum átt tal við merka menn úr ýmsum hjeruðum landsins. Þar sem nú eftirsóknin eftir lánunum var svona mikil, fanst okkur ástæða til að skýra þau svo, að þau kæmu heim við tilgang sinn og allan anda.

Til þess nú að hafa eitthvað nánara við að miða heldur en það, sem stjórnin hefir haft, þar sem er „dómur sveitarstjórna“, lítur nefndin svo á, að þörf sje að hafa sjerstaka eftirlitsmenn fyrir hvern stað. Þess vegna er í 3. gr. brtt. stungið upp á, að skipaðir skuli 2 hæfir menn utan sveitar til þess að rannsaka ástandið og ástæður allar í því sveitarfjelagi, sem láns beiðist.

Það hefir nú sumum fundist, að störf þessara manna mundu verða nokkuð umsvifamikil til þess, að þeir gætu gefið nokkurn veginn ábyggilega skýrslu um ástandið, því að þá þyrftu þeir að kynnast sjálfir hag hvers einstaklings. En nefndin hefir ekki hugsað sjer, að þeir færu inn á hvert heimili, heldur áleit hún, að þessir menn gætu vel kynt sjer þau heimili, þar sem bágastar kringumstæðurnar væru. T. d. gætu menn úr Hafnarfirði eða nágrannasveitunum rannsakað ástandið hjer í Reykjavík, án þess að um mikið umstang væri að ræða. En þessir menn væru betur fallnir til að dæma um ástandið og um gjaldþol manna heldur en bæjar- og sveitarstjórnir sjálfar, því að þeir eru þó altaf menn óhlutdrægir og hlutlausir.

Við skýrum þetta orðatiltæki „veruleg neyð“ þannig, að þegar um heil sveitarfjelög sje að ræða, þá geti þau ekki átt heima nema þar, sem svo sverfi að gjaldþoli manna, að yfir vofi fram undan burtflutningur úr bænum eða sveitinni. Þetta eru ekki einsdæmi, því að hjer við Faxaflóa og víðar þektust sveitir, þar sem svona var komið, og dundu þó ekki önnur eins fádæmi á og nú hefir gengið á um hríð.

Þá er 5. gr. í brtt. meiri hl. um það, hvernig verja skuli þessum lánum, sem veitt yrðu í stað styrksins. Er sú hugsun meiri hl., að bæjar- og sveitarstjórnir skuli vera sem mest sjálfráðar um, hvernig þessum lánum verði varið innan bæjar- og sveitarfjelaga, en þó fanst oss rjettara, að stjórnin gæti sett nokkuð nánari skorður um lánin, þegar hún hefir kynt sjer allar ástæður. Við höfum hugsað okkur, að ekki yrði gefin út nein sjerstök almenn reglugerð um þetta, heldur væri rjett í hverju einstöku tilfelli að setja reglur eftir staðáttum, og yrði þar, með öðrum orðum, nokkurskonar samvinna um vinnu milli bæjar- og sveitarstjórna annars vegar og stjórnarinnar hins vegar.

Í þessari 5. gr. eru einnig ákvæði um, að styrkurinn, hvort sem hann er nú lán eða beinn styrkur, skuli ekki skoðast sem sveitarstyrkur samkvæmt lögum þessum. Það gæti verið, að þetta ákvæði væri ekki sem nákvæmast og þyrfti því að gera það greinilegra. Það gæti sem sje verið álitamál, hvort það ætti ekki að vera svo um hverskonar dýrtíðarstyrk, sem bæjarfjelagið eða sveitarfjelagið veitir á þessum harðæristíma, að hann ljeti ekki hlutaðeigandi þiggjanda missa neins rjettar síns, eða með öðrum orðum, að hann væri ekki skoðaður sem sveitarstyrkur. En jeg býst við, eins og áður er getið, að um þetta atriði þurfi að gera nánari ákvæði.

Það liggur fyrir viðaukatillaga frá minni hlutanum við þá brtt., er hann flytur um þetta atriði, og gæti jeg hugsað mjer, að samskonar tillaga ætti vel við aftan við þessa tillögu vora meiri hluta manna, því að hún er í samræmi við afstöðu vora til málsins.

Þá vil jeg minnast lítils háttar á þær brtt., sem meiri hlutinn gerir við 6. gr. stjórnarfrv. Sú breyting er í því fólgin, að í staðinn fyrir, að landsstjórnin veiti dýrtíðarvinnu, skuli henni heimilt að kaupa afurðir slíkrar vinnu af bæjar- og sveitarfjelögum.

Skoðun nefndarinnar er sú, að heppilegra sje, að bæjar- og sveitarfjelög standi sjálf fyrir og annist um þessa dýrtíðarvinnu, en að þau geti fengið stuðning frá landsstjórninni með því, að hún kaupi þessar afurðir svo háu verði, sem hún sæi sjer fært, þar sem hún á annað borð getur notað þær til opinberra fyrirtækja. Á þennan hátt finst nefndinni málinu betur fyrir komið heldur en að láta landsstjórnina standa fyrir þessum atvinnubótum, eins og varð í fyrra. Það hefir orkað mjög tvímælis, hvernig stjórnin hafi haldið á þessu leyfi, og án þess að nefndin sje að sýna stjórninni nokkurt persónulegt vantraust, þá telur hún heppilegra að láta bæjar- og sveitarstjórnir eiga við þetta og hlífa landsstjórninni við öllum tvímælum í því efni, því að það segir sig sjálft, að bæjar- og sveitarstjórnir geta betur haft auga með því og stjórnað því að öllu leyti, heldur en landsstjórnin, sem hlýtur að standa því allfjarri og sjá alt og meta með annara augum.

Þá ætla jeg að síðustu að koma að takmörkunum, er meiri hlutinn setur fyrir lánunum.

Takmörkin eru hjer 20 kr. á hvern íbúa sveitarfjelagsins eða bæjarfjelagsins. Þessi upphæð er nokkuð hærri en sú upphæð, sem stjórnin í sínu frv. gerir ráð fyrir að útbýtt verði til dýrtíðarhjálpar. Þar eru áætlaðar 15 kr. á hvern íbúa, og greiði landið 1/3 af upphæðinni, en sveitarfjelagið 2/3. En hjálpin, sem till. meiri hlutans fer fram á að veitt verði, er þó enn þá meiri, þegar nánar er að gætt, því að svo er ætlast til, að þessi 20 kr. hjálp komi þá fyrst, er sveitar- eða bæjarfjelag hefir lagt sig alt í framkróka til að hjálpa af sínum eigin ramleik.

Þá lítur nefndin líka svo á, að þessi fúlga, sem landsstjórnin hefir ætlað að greiða úr landssjóði og nemur að eins 5 kr., sje svo óveruleg, að hún hrökkvi skamt, ef verulega neyð bæri að höndum.

Nú er það heldur enginn meginmunur í dýrtíðinni, hvort hjálpin er veitt sem styrkur, sem ekki sje afturkræfur, eða þá sem lán. Munurinn kemur fyrst fram, þegar kemur til þess að endurgreiða lánið. Jeg vil í þessu sambandi benda á það, að ef landssjóður veitir til dýrtíðarhjálpar sem svarar 5 kr. á mann, þá kemur t d í Reykjavík að eins 75 þús. kr. upphæð, og hugsum oss, hversu mikið munar um það í verulegri neyð?

Taka má dæmi af hjálp þeirri, er veitt var hjer í Reykjavík í vetur, ekki við matarskort eða í verulegri neyð, heldur bara í eldsneytisvandræðunum, af því að kol voru svo dýr, að fáum var kleift að kaupa eftir þörfum. Flestum ber víst saman um það, að þessi hjálp hafi komið sjer vel, en að það, sem kom á mann, hafi verið fulllítið. Eftir því, sem jeg hefi heyrt, er látið af því, að þessi dýrtíðarhjálp hafi raunar víðast hvar náð mjög skamt Samt voru það 214 þúsund krónur, sem þannig voru veittar í hreinan dýrtíðarstyrk hjer í Reykjavík. Hvað segja þá 75 þúsund krónur, bara fyrir þennan eina lið? Það er ekki heldur nema þriðjungur á móts við það, sem síðastliðinn vetur var varið til dýrtíðarvinnu hjer í Reykjavík, bæði af bæjarstjórn og landsstjórn. Menn væru lítið hólpnari fyrir þann styrk, þótt að eins sje litið á þann eina lið, eldsneytið.

Það er því sýnt, að styrkur sá, sem stjórnarfrumv ætlast til að landssjóður legði sveitar- og bæjarfjelögunum, er alt of lítill til þess, að hans gæti nokkuð. En að dreifa út styrk, sem auðsjáanlega getur ekki komið að neinu verulegu liði, er tilgangslaust, nema þá að svo sje um hnútana búið, að hann hitti að eins þá punkta, sem allra veikastir eru fyrir, — að styrkur verði sem sagt ekki veittur nema líf liggi við.

Þetta hefir haft áhrif á tillögur nefndarinnar í heild sinni.

Tillaga meiri hlutans um það, að landsstjórninni sje heimilt að veita dýrtíðarlán, sem nemi alt að 20 krónum á mann, fer nokkuð lengra en stjórnarfrv. Eftir þessari till. gæti Reykjavíkurbær t. d.

fengið 300 þúsund króna lán. Það er dálítið meira en styrkurinn í vetur sem leið. Þó er jeg ekki á, að það hafi ýkja mikil áhrif, ef því er varið til úthlutunar á kolum með niðursettu verði, eftir sömu aðferð og næstliðinn vetur. En það getur munað um það, ef hjálpin er að eins látin koma niður þar, sem ekki er aðra hjálp að fá. Jeg hefi tekið Reykjavík til dæmis við þennan samanburð, af því að hún er hendinni næst, en hlutföllin eru auðvitað svipuð annarsstaðar.

Meiri hluti nefndarinnar hefir nú hallast að því að hafa dýrtíðarhjálp þá, sem stjórninni heimilast að veita, einungis lán, en ekki beinan styrk til einstakra bæjar- og sveitarfjelaga, eins og eftir stjórnarfrv. Við það að auka þessi fjárframlög landssjóðs eins mikið og meiri hlutinn vill, þá þykir okkur viðsjárvert að demba því á landssjóð sem hreinum kostnaði. Hefir nefndin búist við, að lánafúlgan gæti farið upp í ca. 1 miljón króna.

Að sjálfsögðu verður að framlengja nokkuð af þessum lánum, og sennilega gefa nokkuð af þeim upp fyrir fult og alt. En nefndin vill þó ekki skuldbinda landssjóð að svo komnu til þess að leggja þetta fje fram til lengri tíma en tveggja ára. En ef þá reynist ókleift að fá það inn, þá verður ef til vill unt að finna einhverjar nýjar leiðir, og vonandi er, að þingið sjái þá um, að stjórnin hafi til einhvers fjár að gripa, og það helst fjár, sem hún á sjálf, en hefir ekki að láni frá öðrum þjóðum.

Jeg hefi þá farið yfir aðaltillögur meiri hlutans. Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) hefir ekki getað fallist á tillögur okkar og kemur því fram með minni hluta nefndarálit. En mjer finst, að háttv. minni hluti geri fullmikið úr þeim greinarmun, sem er á þessum tveim tillögum. Mjer finst hann aldrei hafa skilið til fulls það, sem fyrir meiri hlutanum vakir. Honum finst eitthvað harðari blær á tillögum okkar. Annars er hann að miklu leyti á sömu skoðun, eins og brtt. hans sýna. Blærinn er bara dálítið mýkri, orðalagið óákveðnara og þar af leiðandi ófullkomnara, og ekki nægileg trygging fyrir því, að styrkurinn komi niður þar, sem þörfin er brýnust.

Eitt atriði í nefndaráliti okkar fer hv. minni hluti ekki rjett með í áliti sínu. Hann segir svo: „Meiri hluti bjargráðanefndar lítur svo á, að ekki sje rjett, að landssjóður veiti nokkurn fjárhagslegan stuðning, fyr en svo er orðið ástatt, að sveitar- eða bæjarfjelagið er orðið svo þrotið að kröftum, að þeir, sem einhvers megna, ætla, sökum sveitarþyngsla, að flýja hjeraðið“. Með þessum orðum er kastað öðrum blæ á tillögur meiri hlutans en við á. Í okkar nál. er svo að orði komist um þetta, að hjálp megi ekki veita fyr en svo hafi sorfið að gjaldþoli manna innbyrðis, að yfir vofi að hinir efnaðri menn flýi, sökum gjaldþyngsla, en ekki að sveitarfjelagið sje komið í þrot. Á því er talsverður munur. Menn flýja oft hjeruð fyr en þau eru að þrotum komin. Til þess þarf ekki annað en að betra sje að vera annarsstaðar, eins og átt hefir sjer stað í nokkrum hjeruðum hjer við Faxaflóa. Það má auðvitað aldrei bjóða mönnum meiri gjaldbyrði en svo, að þeir tolli í sveitinni eða bænum. Jeg ætla svo ekki að halda lengri ræðu að þessu sinni. Jeg geri ráð fyrir, að umræður verði um þetta mál. En jeg álít, að búið sje að skýra þetta mál svo vel, að menn græði ekki hætis hót á þeim.