13.05.1918
Neðri deild: 21. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

42. mál, Hvalsíki í Vestur-Skaftafellssýslu

Flm. Gísli Sveinsson:

Jeg skal láta mjer nægja að vísa að eins til greinargerðarinnar, sem þessu frv. fylgir, og býst jeg ekki við, að þess gerist þörf að ræða það, hvorki nú nje síðar. Að eins vil jeg geta þess, að orðalag frv. kemur til af þeim sökum, að lög og venjur segja til um það, að hjer skuli í þessu tilfelli kalla löggilding verslunarstaðar, en eins og kunnugt er um allflesta staði, sem hafa verið löggiltir, þá verða það sjaldnast reglulegir verslunarstaðir, heldur að eins uppskipunar- og lendingarstaðir, margir lítið notaðir annað, og verða sumir sennilega mjög lítið notaðir. En jeg býst við, að það, sem hjer er látið fylgja, sje nóg til að sýna háttv. þm. fram á, að ekkert sje gerandi til þess að standa í vegi fyrir þeirri þurft, sem þetta hjerað hefir til viðkomustaða fyrir alla þá farkosti, sem til kunna að verða þar með ströndinni.

Jeg vil því mælast til þess, að þetta frv. nái fram að ganga, bæði við þessa umr. og síðar, án þess að það þurfi að koma til nefndar.