05.06.1918
Efri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Magnús Kristjánsson:

Mjer finst brtt. nefndarinnar þess eðlis, að ekki hefði þurft að gera ráð fyrir mikilli mótstöðu gegn þeim. Jeg lít svo á, að þær stefni í líka átt og frv. stjórnarinnar og sjeu fult eins heppilegar. Þótt búast megi við, að frv. stjórnarinnar hafi verið vandlega athugað áður en það var flutt hjer í þinginu, þarf engan að undra, að það komi í ljós, þegar frv. er búið að ganga í gegnum nefndir í báðum deildunum, að einstök atriði hefðu mátt betur fara.

Mest er um það rætt, hvort dýrtíðarhjálpin skuli takmörkuð að ofan. Virðist hæstv. fjármálaráðherra skilja brtt. nefndarinnar svo, að þar sjeu engin takmörk sett. En það er ekki rjett. Ýmsar takmarkanir, örðug lánskjör og mikið framlag, munu valda því, að sveitar- og bæjarfjelög munu ekki leita meiri lána en nauðsyn krefur. En satt er það að vísu, að þegar í verulegar nauðir rekur, eru lánsheimildinni engin takmörk sett, og er það að mínu áliti aðalkostur brtt. Föstu skorðurnar að ofan gætu orðið verri en engar. Við skulum taka dæmi. Gerum ráð fyrir hörðum vetri. Bóndi á útbeitarjörð er orðinn heylítill á Góu. Hann verður að kaupa kornvöru, og ræður við sig, hve mörg kíló hann skuli taka. Hann segir við sjálfan sig: „Nú kaupi jeg ekki meira korn; þetta verður að endast“. Bóndinn verður uppiskroppa um sumarmál, og peningurinn fellur. — Þessi bóndi setti föst takmörk að ofan fyrir því, hvað hann skyldi kaupa, og því kom það, sem hann keypti, ekki að neinu gagni. Við þessi takmörk að ofan vildi nefndin losna, og hæstv. fjármálaráðherra hefir lýst yfir því, að þau myndu verða einkis nýt, ef neyð bæri að höndum. En segið mjer, hvaða ástæða er til að hafa slík lagaákvæði, þegar það er fyrirfram sjáanlegt og jafnvel viðurkent af sjálfum fjármálaráðherranum, að óhjákvæmilegt muni verða að brjóta þau, ef verulega neyð bæri að höndum.

Undanfarandi reynsla hefir sýnt það, að núverandi hæstv. stjórn er fær um að sjá það, þegar komið er í verulega neyð, því að þótt henni hafi síðastliðið ár borist lánbeiðnir, sem námu 2 miljónum kr., þá mun hún ekki hafa sint þeim til muna.

Og sama mundi koma á daginn, þótt brtt. nefndarinnar yrðu samþ.; lands stjórnin mundi ekki ausa út fje áður en fullvíst væri, að aðrar leiðir væru ekki færar.

Þessi hætta er því grýla ein, sem hverfur við nánari athugun málsins.

Þá hefir því verið haldið fram, að gera megi ráð fyrir, að bankarnir vilji ekki lána bæjar- og sveitarfjelögum, þegar lagaheimild er fyrir lánveitingum úr landssjóði, ef bankarnir neita.

En hjer lít jeg alt öðruvísi á. Þegar ekki er um önnur lán að ræða en með fullum lánsvöxtum, þá munu bankarnir skoða vandlega huga sinn áður en þeir neita, og það því fremur, þegar hægt er að fá lánin annarsstaðar.

Og til hvers eru þá bankarnir, ef þar er ekki nokkurn veginn greiður vegur að fá lán með venjulegum lánskjörum.

En færi nú svo samt sem áður, að bankastjórnirnar skildu ekki betur ætlunarverk sitt en svo, að slíkt yrði ofan á, þá er það hlutverk landsstjórnarinnar að knýja fram slík lán.

Þar mundi því bera að sama brunni, og er því engin hætta, hvernig sem á er litið, að samþ. till. nefndarinnar.

Þá vildi jeg að eins víkja að því, sem haldið hefir verið fram, að lánaleiðin sje sú hála braut, sem til glötunar leiði.

Jeg er þar líka annarar skoðunar. Jeg álít, að engar aðrar færari leiðir sjeu til en gera ráð fyrir slíkum lánsheimildum.

Þótt landsstjórnin vilji leggja fram fje til styrktar ýmsum atvinnuvegum, þá álít jeg hitt miklu betra og eðlilegra, að bæjar- og sveitarstjórnir athugi ýms atvinnufyrirtæki, sem fram mætti koma, og að því búnu leituðu til landsstjórnarinnar með lánbeiðni til þess að hrinda þeim fyrirtækjum áfram, þegar atvinnuleysi kreppir að.

Jeg álít því, að best rauni reynast, að brtt. nefndarinnar fái að ganga fram, því að hvernig sem á er litið, tel jeg lánsheimildina til bóta, og hún er að mínu áliti eini vegurinn til þess, að almennri dýrtíðarhjálp verði komið fram.

Úr þessum óendurkræfa styrk geri jeg miklu minna; jeg býst við, að alt mundi eins vel bjargast án hans, að eins ef lánsheimildin er fyrir hendi.

Og fari svo, að erfiðleikar verði á handbæru fje hjá landsstjórninni, þá er ekki óhugsandi, að sá forði sje til einhversstaðar í landinu, að hægt sje að bæta úr brýnustu þörfinni.

Jeg skal svo ekki fara frekari orðum um málið. Að eins þótti mjer viðkunnanlegra, þar sem jeg er í nefndinni, að skýra frá því, hvers vegna jeg er till. fylgjandi.