18.06.1918
Efri deild: 46. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

47. mál, kynbætur hesta

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Frv. það, er hjer liggur fyrir, er breyting á nýjum og óslitnum lögum frá síðasta Alþingi. Eins og sjest á nál., þá hefir landbúnaðarnefndin ekkert að athuga við þá breytingu, er frv. þetta gerir á lögunum.

Breyting sú, sem frv. þetta hefir að færa, gerir strangari ákvæði um, hverju það getur varðað, ef graðhestur hittist annarsstaðar en í heimalandi folaeiganda; þá megi taka graðhestinn og geyma hann eða gelda á kostnað og ábyrgð eigandans. (Ýmsir þm. brostu). Mig furðar ekki, þótt ýmsir háttv. þm. brosi að þessu, því að þeim mun þykja þetta ólíkt skemtilegra umræðuefni en það, sem var hjer til umræðu næst á undan, og eiga betra með að gera sjer grein fyrir því en öllum þeim tölum, er þar voru nefndar. En svo að jeg víki aftur að efninu, má telja líklegt, að ef þetta ákvæði er hert, svo sem hjer er gert ráð fyrir, þá mundu menn síður láta graðhesta sína ganga lausa í annara manna landi, og þá ætti að vera hægra að hafa eftirlit með kynbótum, sem meira væru en nafnið tómt. Þar sem hrossaræktarfjelög eru er víðast mikill áhugi fyrir kynbótum hrossa, og er það því vel til fallið að fela þeim að hafa eftirlit með, að þessum lögum sje hlýtt. En þar sem slíkur fjelagsskapur er ekki mun áhuginn vera lítill alment, og þeim fáu mönnum þar, er hugsa um kynbætur hrossa, vera mjög örðugt að koma því við í framkvæmd sökum hirðuleysis annara, en ákvæði þetta gerir aðstöðu þeirra miklu betri, er nokkra reglu vilja hafa í þessu efni.

Jeg vænti þess, að háttv. þm. hafi ekkert að athuga við þessa brtt., og vænti því, að allir gjaldi frv. jákvæði og það fái að verða að lögum.