05.06.1918
Efri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Kristinn Daníelsson:

Jeg hefi heyrt ýmsa segja, að þetta frv. sje ekki mikils virði. Aðalmergur þess eða tilgangur virðist vera sá, að breyta dýrtíðarlögunum frá í fyrra í þá átt, að forða landssjóði frá lánsheimildunum, sem þar voru veittar. Nú var það svo, að margir voru einmitt glaðir yfir þessari lánsheimild og töldu, að af því gæti gott leitt, en nú á að kippa henni burt. Til þess að bæta þetta upp, á landssjóður að gefa talsverða upphæð, og getur hún, ef öll bæjar- og sveitarfjelög landsins nota hana, numið mest 450.000 kr.

Jeg sje nú ekki betur en að það sje eitt af helstu verkefnum þessa þings að horfa beint framan í þá hættu, er getur vofað yfir, og að þingið verði að hafa dug og djörfung til þess að forða frá hættunni, hvort sem það svo kostar 1/2 miljón eða meira. Og þingið getur ekki skotist undan þessari sjálfsögðu skyldu sinni, eða skotið landssjóði undan hjálpinni.

Jeg skal viðurkenna það, að mjer þykir skemtilegra að hjálpa sveitarfjelögunum með lánum heldur en með gjöfum, og jeg skal í sambandi við þetta minna á ákvæðið í 1. gr., að til þessarar hjálpar eigi ekki að taka, nema til þess að „bæta úr verulegri neyð“. En það er öldungis sjálfsagt, eins og hæstv. fjármálaráðh. sagði, að þá sje hjálpað, svo sem unt er, hvað sem öllum dýrtíðarlögum líður.

Mjer þykja þess vegna brtt. nefndarinnar aðgengilegri heldur en frv.; felst líka það í þeim, að þær takmarka lánsheimildina mjög mikið. Hæstv. fjármálaráðh. tók það oftsinnis fram, að með till. nefndarinnar væru lánin ekkert takmörkuð, en það sje jeg ekki að sje með rökum sagt. Ef brtt. nefndarinnar er samþykt, þá er þar tekið fram, að einungis þegar þurfi að verja til dýrtíðarráðstafana, auk venjulegra útgjalda, meiru en ítrast er fært að jafna niður, eða fá lán til annarsstaðar, geta þau snúið sjer til landssjóðs um lán. Í þessu felst takmörkunin, því að til þessa munu sveitirnar ekki grípa fyr en í seinustu lög. Það eru því settar skorður við því, að þessi lánsheimild sje misbrúkuð, og ef þessar skorður þykja ekki nægilegar, þá mætti t. d. setja hámark í 4. gr. um það, að dýrtíðarhjálpin mætti ekki nema meiru en t. d. 25—50 krónur á mann. Þetta atriði vænti jeg að háttv. nefnd athugi til næstu umr.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) taldi illa fallið, að lán þessi væru talinn sveitarstyrkur, ef þau væru ekki greidd eftir tiltekinn tíma, og verð jeg að taka undir það með honum, að mjer finst það varhugavert, að dýrtíðarlánin sjeu talin sveitarstyrkur, eins og löggjöfinni um sveitfesti er nú varið. Þetta er oft viðkvæmt mál í sveitunum, þegar skera þarf úr um sveitfesti, og það gæti einhversstaðar farið svo, að utansveitarmenn væru látnar sitjar á hakanum, en við því vill nefndin setja varnagla, þar sem hún setur hverjum rjett til dýrtíðarhjálpar í dvalarsveit hans, en af þessu getur hlotist ýmislegur misskilningur og vandræði. Jeg skal nefna það dæmi, að einhver er búinn að vera 9 ár samfleytt í sama sveitarfjelaginu, og 10. árið er byrjað, og hann er að vinna sjer sveitfestina, en þá þarf hann dýrtíðarhjálp, og þrátt fyrir hana vinnur hann sjer sveitfestina. En er að gjalddaga lánsins líður, eftir 5 ár, þá getur hann ekki greitt lánið, og það verður talið, að hann hafi þegið það sem sveitarstyrk. Til hvorrar sveitarinnar telst þessi maður þá, dvalarsveitarinnar eða fyrri framfærslusveitar sinnar? Eins er það víða, að þurfalingar eru búsettir utansveitar; sveitarfjelagið, sem þeir eru þurfalingar í, greiðir styrk sinn til þeirra til dvalarsveitarinnar. Þetta er með samkomulagi beggja sveitarfjelaganna. Ef dvalarsveitin veitir þeim dýrtíðarlán, þá á hún ekki rjett á að fá þau endurgoldin frá sveitarfjelagi þeirra. Þetta getur valdið vafningum og þarf að athuga, og eins um alla þá, sem eru að enda við að vinna sjer sveitfesti, því að þá fyrst, þegar lánsfresturinn er liðinn, sjest, hvort telja ber dýrtíðarhjálpina sveitarskuld eða ekki, auk þess sem marga vafninga og oft langan tíma hlýtur að þurfa til þess að fá það upplýst, eftir fleiri ár, hver sje framfærslusveit styrkþega. Jeg hefði því kunnað því best, að því hefði slept verið, að styrkurinn gæti orðið sveitarstyrkur.

Jeg veit, að það á sjer víða stað, að sveitarfjelögin veita einstökum mönnum lán, án þess að þau skoði lán þessi sem sveitarstyrk, þótt svo beri auðvitað við á stundum, að lán þessi verða að sveitarstyrk, og eins mætti með þetta vera.

Þótt mjer líki ekki að fullu brtt. nefndarinnar, mun jeg þó greiða þeim atkvæði.