05.06.1918
Efri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Framsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Jeg verð að segja það, að mjer kom það hálfpartinn á óvart, þótt jeg í aðra röndina byggist við því, að hæstv. stjórn skyldi ekki taka frekar vel í brtt. nefndarinnar.

Til þessa lágu þrjár ástæður, og eru þær þessar:

1. að brtt. eru til bóta,

2. að brtt. bera vott um meira traust til stjórnarinnar en frv., eins og það kom frá háttv. Nd., og það hefði stjórnin átt að meta nokkurs,

3. að hjer á þingi er þm. skift nokkurn veginn í tvo jafnstóra flokka í þessu máli, þar sem annar flokkurinn vill veita dýrtíðarhjálpina sem lán, en hinn sem styrk.

Hjer er farinn meðalvegur og gerð samkomulagstilraun, sem að líkindum hefði bætt hug þingsins til stjórnarinnar, ef hún hefði kunnað að taka henni skynsamlega.

Hæstv. fjármálaráðherra tók dæmi af Reykjavíkurbæ. Fyrst fengi bærinn 160 þús. kr. lán, tæki svo annað lán, er næmi 500 þús. kr., og fengi þá um leið 500 þús. kr. óendurkræfan styrk úr landssjóði. Þetta er alt rjett hugsað. En hitt er annað, hve álitlegur gróðavegur það sje fyrir bæinn. Jeg sje ekki, að það sje neitt gróðafyrirtæki fyrir bæjarfjelag sem slíkt að fá slíka hjálp, og vil jeg, því til sönnunar, benda á ákvæðið í 5. gr. 2. brtt. um, að „aldrei má í neinu bæjar- eða sveitarfjelagi veita minni óendurkræfan styrk til einstaklinga en veittur hefir verið þangað af landssjóði“.

Styrkurinn mundi strax hverfa, en bærinn standa uppi með 660 þús. kr. lán með erfiðum vaxtakjörum, og þarf ekki að segja mjer, að hann mundi leggja í slíkt að nauðsynjalausu.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) taldi lánsskilyrðin svo örðug, að hans bæjarfjelag mundi ekki nota þessa leið, þó að lán þyrfti að taka. Hjer kveður við annan tón en hjá hæstv. fjármálaráðherra, og er hvorttveggja öfgar, og þetta þó nær sanni. Það væri fokið í flest skjól, er jeg færi að hvetja mitt sveitarfjelag til þess að nota þessa hjálp. En við það eru brtt. miðaðar, að ekki verði til þessara lána og styrkveitinga gripið fyr en nauðsyn krefur. En aðalatriðið er líka, að fjeð sje þá fáanlegt.

Þetta voru aðalatriðin, er jeg vildi minnast á; sumt, sem borið hefur á góma, er mjer fallið úr minni, enda munu menn búnir að ráða við sig, hvorum þeir fylgja að málum.