11.06.1918
Efri deild: 41. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Það getur verið, að sumir líti svo á lögin frá 1. febrúar 1917, að þau heimili það, sem hjer er farið fram á; en jeg býst samt við, að skiftar skoðanir yrðu um það, og getur þá þetta frv. tekið af allan vafa í því efni.

Jeg hallast helst að brtt. háttv. þm. Ísaf. (M. T.), enda mun nefndin geta fallist á að taka sína brtt. aftur.

Svo vildi jeg lýsa yfir því frá stjórnarinnar hálfu, að hún mun alls ekki ætla sjer að beita nokkru einræði í þessu máli. Hún mun leita umsagnar forstöðumanns landsverslunarinnar og nefndarinnar, sem nú er nýskipuð. Það er alveg ástæðulaust að halda, að kaupmönnum verði gert svo erfitt fyrir, að þeir treystist ekki til að halda áfram atvinnu sinni. Jeg fyrir mitt leyti treysti hinni nýskipuðu nefnd fullkomlega til þess að eyðileggja ekki hvötina hjá kaupmönnum til að halda áfram að versla með hagnaði.