11.06.1918
Efri deild: 41. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Magnús Kristjánsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. með fyrirvara og skal hjer með gera grein fyrir hvers vegna.

Í fyrsta lagi hefi jeg gert það af því, að frv. er óþarft, þar sem landsstjórnina brestur ekki þá heimild, sem það veitir. Sú heimild er fyrir í lögum frá 1. febrúar 1917.

Í öðru lagi getur ekki, eins og nú er ástatt, orðið um mikinn annan vöruflutning til landsins að ræða en þann, sem er landsmönnum bráðnauðsynlegur, vegna þess að skipastóllinn er hvergi nærri nógur.

Í þriðja lagi hefi jeg, ásamt öðrum stjórnendum landsverslunarinnar gert grein fyrir áliti okkar í þessu máli, í skjali til landsstjórnarinnar, og þar lagt til, að nauðsynjavörur, svo sem kornvara og sykur, sjeu seldar af landsversluninni, en aðrar vörur gangi til kaupmanna.

Jeg gæti fært til fleiri ástæður, svo sem þá, að eins og nú er komið, ræður lands stjórnin í raun og veru öllum inn- og útflutningum, og til þess að flytja inn nauðsynjavörur þarf leyfi landsstjórnarinnar. Færi nú landsstjórnin að gefa út einhverja reglugerð fyrir því, hvaða vörur skyldu teljast ónauðsynlegar og hverjar ekki, þá má ganga að því sem vísu, að um það yrðu skiftar skoðanir, hve mikið rjettlæti væri í þeirri reglugerð, hvað væri nauðsynjavara og hvað ekki. Hún yrði eilíft þrætuepli. Jeg get því ekki heldur fallist á brtt. meðnefndarmanna minna um, að reglugerð sje gefin um, hvað ekki megi flytja til landsins.

Brtt. á þgskj. 331, frá flm. frv. (M. T.), er næst því að vera frambærileg, og skal jeg ekki leggjast á móti henni, a. m. k. fyrra atriðinu. En viðvíkjandi síðara atriðinu, þá hefir reynslan sýnt, að erfitt er að framfylgja landsstjórnarreglunum. Þegar landsstjórnin seldi sykurinn og kaupmenn áttu að hafa útsöluna á hendi, þá máttu þeir hvorki halda honum inni hjá sjer nje selja hann fyrir hærra verð en landsstjórnin setti á hann. En hvorttveggja átti sjer stað. Kaupmenn sumir seldu hærra en leyfilegt var og hjeldu sykrinum inni hjá sjer.

Jeg hefi þá þegar lýst því, að jeg sje á móti þgskj. 219 og 320. Þgskj. 331 get jeg látið hlutlaust. En mig skyldi ekki undra, þótt árangurinn af öllu þessu yrði eitthvað minni en háttv. flm. (M. T.), forsætisráðherra o. fl. hjer í deildinni halda.