15.06.1918
Efri deild: 45. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Halldór Steinsson:

Við 1. umr. um frv. þetta talaði jeg á móti því og tók þá fram, að jeg teldi frv. varhugavert og að það gæti haft háskasamlegar afleiðingar í för með sjer, ef því vœri misbeitt. Jeg bjóst nú við, að nefndin

mundi lagfæra frv. og að það kæmi stórbreytt frá henni. En sú von hefir alveg brugðist; brtt. nefndarinnar voru mjög smávægilegar. En aftur hefir háttv. flutnm. (M. T.) færst mjög í aukana og vill altaf herða frv. meir og meir. Fyrst vildi hann láta frv. að eins ná til ónauðsynjavöru, en nú nægir honum það ekki lengur, heldur vill hann, að það taki til allrar vöru, jafnt nauðsynlegrar sem ónauðsynlegrar. En það er ekki nóg með það Hann hefir fengið eftirþanka og vill kippa burt orðunum „ef þörf gerist“, og sjá allir, hvern mismun það gerir, er greinarnar lesa. Þetta hefir ekki einu sinni nægt honum hann hefir fært sig enn þá upp á skaftið, og með 1. brtt. sinni á þgskj 359 vill hann koma því til vegar, að lög þessi gildi um óákveðinn tíma, eða svo lengi sem stjórninni þóknast, en ekki að eins meðan Norðurálfuófriðurinn stendur, eins og núgildandi lög mæla fyrir.

Það er ekki hægt að segja annað en að það sjeu komnar margar útgáfur af frv., en það væri synd að segja, að það sjeu endurbættar útgáfur, því að þær fara stöðugt versnandi.

Hversu vitur stjórn sem sæti við stjórnvölinn, þá væru lög sem þessi athugaverð, en hjá misviturri stjórn geta slík lög, ef þeim er misbeitt, orðið stórhættuleg fyrir atvinnufrelsi og framþróun einstaklingsins.

Það getur verið rjett að veita stjórninni heimildir milli þinga, en það verður ætið að vera brýn nauðsyn til þess og gert með hinni mestu varúð. Alþingi hefir áður gefið landsstjórninni ýmsar heimildir á ýmsum sviðum, og að mínu áliti er of mikið gert að heimildum þessum, því að um ýms mál, er stjórnin hefir haft með höndum samkvæmt þessum heimildum, hefir risið upp talsverð óánægja, af því að stjórninni hefir ekki tekist að fara með þau samkvæmt tilætlun þingsins. (Atvinnumálaráðherra: Eins og hvar?). Það hlýtur stjórninni að vera kunnugt, en benda skal jeg þó hæstv. atvinnumálaráðh. sem dæmi á Tjörnesnámuna, og má þó fleira telja.

Með þessu frv. er stjórninni gefið alræðisvald um öll verslunarmál landsins, og er það mjög óheppilegt og má ekki eiga sjer stað. Í lögum þeim, er samþykt voru á síðasta þingi, voru stjórninni veittar nægilegar heimildir um þetta, og reynslan hefir sýnt, að fleiri eða meiri heimilda er engin þörf, en hinar eru fullmiklar, sem fyrir eru. Jeg mun því hiklaust eins og áður greiða atkvæði á móti frv.