15.06.1918
Efri deild: 45. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Halldór Steinsson:

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) var að tala um það, að 1. gr. á þgskj. 359 væri nauðsynleg, því að ef hún yrði ekki samþ., þá gætu kaupmenn sama daginn og stríðið hætti keypt vörur og flutt til landsins, og þá selt ódýrara en landsverslunin, svo að landsverslunin biði tap við það. Þessi ástæða er mjög ljettvæg, því að það eru engin líkindi til þess, að vörur stórfalli í verði alt í einu, og tap landsverslunarinnar gæti aldrei orðið mikið. Forðinn er ekki svo ýkjamikill. (M. T : Hann gæti verið það). Hann hefir aldrei verið það hingað til, og líkt verður víst eftirleiðis.

Sami háttv. þm. (M. T.) sagðist eigi skilja jarm þann, er væri um mál þetta frá mjer og kaupmönnum landsins. Jeg hefi aldrei skoðað mig sem málsvara kaupmanna, en mín vegna má hann gjarnan nefna það „jarm“, þegar haldið er fram rjettmætum kröfum fjölda margra manna í landinu og rjetti vissra stjetta. Annars virðist svo, sem háttv. þm. Ísaf. (M. T.) hafi með undarlegum hætti gerst verndari stjórnarinnar um þessi mál, en honum hefir langt frá því farist það fimlega, og bendir það ótvírætt á það, að hugur fylgi lítt máli. Það mega og allir skilja, er vilja beita skynsemi sinni, að eðlilegt er. Ætíð slæmt að verja rangt mál.

Háttv. 1. landsk. varaþm. (S. F.) vildi færa bætur fyrir hönd nefndarinnar. Er það eðlilegt, þar sem hann á sæti í nefndinni, og gera skal jeg það honum til hugfróunar að játa, að frekar var bót að till. nefndarinnar, þótt þær væru, eins og jeg sagði áðan, óverulegar, því að eftir brtt. nefndarinnar var heimild þessi veitt stjórninni, en eins og oft hefir sýnt verið á þessu þingi, þá hafa stjórninni þegar verið veittar ofmiklar heimildir og því ekki rjett að bæta við þær. Á þetta atriði legg jeg áherslu, því að brautin, sem hjer er gengin, er stórhættuleg og getur leitt beint til glötunar.