15.06.1918
Efri deild: 45. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Guðmundur Björnson:

Jeg tel mjer skylt að tala fáein orð í þessu máli áður en gengið er til atkv, því að talsvert hefir bryddað á misskilningi í umræðunum, einkum þó í ræðu háttv. 1. þm. Rangv. (E. P.). Hann áleit, að verðlagsnefndin væri að sjálfsögðu afnumin, ef þetta frv. verður samþ., og hefði átt að byrja á því áður en þetta frv. var borið fram. Þessi ummæli eru bygð á fullkomnu þekkingarleysi á því, hvernig þessum málum er nú hagað. Verðlagsnefndinni er ætlað það verkefni, að hafa eftirlit með vöruverði smásalanna og verði á innlendri yöru. Það liggur í augum uppi, að hvað sem frv. því, sem nú er til umr., líður, þá kemur það ekkert við verðlagi á innlendri vöru. Er því jöfn þörf á verðlagsnefnd eftir sem áður, þótt frv. verði að lögum. Það hefir komið í ljós, að sumum er ekki fullljóst, hvert frv. stefnir. Hæstv. forsætisráðherra var það ljóst, og því mælti hann öfluglega með frv., er það kom fyrst til umr. í frv. er átt við, að landsstjórnin taki í taumana, ef stórkaupmennirnir, sem áður hjetu umboðssalar, — þeir, sem selja smákaupmönnunum —, ef þeir leggja of mikið á vöruna.

Jeg get frætt menn á því, að það er býsna erfitt að hafa eftirlit með kaupmönnum, en þó hvergi nærri ógerlegt, enda hefir það verið gert að miklu meira leyti en menn vita af. Rannsóknir verðlagsnefndarinnar í vetur leiddu í ljós, að álög smákaupmanna voru yfirleitt ekki fram úr hófi. En alt öðru máli var að gegna um stórkaupmennina. Áður en ófriðurinn mikli hófst var atvinnu þeirra öðruvísi hagað en nú er. Þá voru þeir umboðssalar. Þá keyptu þeir útlendar vörur fyrir reikning smákaupmannanna og fengu fastákveðin umboðslaun fyrir. En nú hefir þetta gersamlega breyst. Alveg umsnúist. Hjer er engin umboðsverslun til lengur. Ef smákaupmaður kemur til stórkaupmanns og biður hann að kaupa fyrir sig vörur, fær hann þetta svar: „Nei, það geri jeg ekki. En þú getur fengið þessar vörur keyptar hjá mjer“. Þessi breyting á stórversluninni hefir ekki orðið almenningi til hagsældar og ekki heldur hinni eiginlegu kaupmannastjett — hinni stóru verslunarstjett. En hvers vegna hefir þessi breyting orðið? Það liggur í augum uppi. Þegar vandræðin aukast, sjá stórkaupmennirnir sjer leik á borði og setja smákaupmönnunum stólinn fyrir dyrnar, neyða þá til að kaupa vörur hjá sjer. Það hafa þeir getað, því að samkepnin er svo lítil. Þessa eru ótal dæmi. Verðlagsnefndin hefir sannanir fyrir því. Þetta er dómur hennar um flesta stórkaupmennina: að þeir hafa lagt óhæfilega mikið á vöruna. En lögin, sem verðlagsnefnd hefir haft við að styðjast, hafa gert henni ómögulegt að taka í taumana.

Þessi leið, sem nú er fyrirhugað að fara, til að koma í veg fyrir óhæfilegan stórkaupmannagróða, hefir fyrir lifandi löngu verið lögleidd annarsstaðar. Verðlagsnefndin fjekk áþreifanlegasta vissu um það þegar við fengum rúginn frá Danmörku. Honum fylgdi það ákvæði, að stórkaupmenn mættu ekki leggja á hann nema takmarkað, lágt ómaksgjald. Þess vegna fengum við rúginn með skikkanlegu verði. En hjer á landi hefir landsstjórnin hingað til ekki haft minstu heimild til að takmarka álag stórkaupmanna. Þess vegna er frv. það, er nú er fram komið, bráðnauðsynlegt. Það er bráðnauðsynlegt vegna þess, að það er sannanlegt, að stórkaupmenn hafa lagt óhæfilega mikið á brýnustu nauðsynjavörur.

Jeg ætla mjer ekki að fara að deila um það, hvort afnema skuli verðlagsnefndina. Jeg hefi haft þann starfa á hendi, eins og margan annan vanþakklátan starfa í þjóðfjelaginu, og kvíði jeg ekki því að losna við hann. En þótt þetta frv. verði samþ, er jöfn nauðsyn á verðlagsnefnd og verið hefir.

Jeg vona, að háttv. deild skilji nú, að hjer er hvorki vitleysa nje óþarfi á ferðum. En því vil jeg bæta við, að eins og alt er nú orðið örðugt hjer í landi, þarf Alþingi ekki síður að hugsa eitthvað um alla þá, sem kaupa, og ekki eingöngu um hina himnesku framleiðendur.