15.06.1918
Efri deild: 45. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Guðmundur Björnson:

Það eru tvö atriði í ræðu háttv. 1. þm. Rang. (E. P.), sem jeg vil drepa á.

Það fyrra voru meiðyrðin til mín um bitlingaþágu. Nefni jeg það bara til þess að sýna, að jeg skildi hvert fór, en ekki til þess að bera af mjer eða svara þeim á neinn hátt. Þeir koma tímarnir, að sannleikurinn kemur í ljós í þessu efni sem öðrum. Bíð jeg rólegur eftir dómi framtíðarinnar, þó að stundum seint komi, um mín störf, og læt mjer í ljettu rúmi liggja, hvaða dóm háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) kveður upp í dag um mig.

Annað atriðið er það, sem oft hefir verið minst á, að verðlagsnefndin hafi lagst á innlendu framleiðsluna, en alls ekki skift sjer af verði á útlendri vöru. En þetta er jafnrangt fyrir það, þótt oft hafi það verið haft á lofti. Verðlagsnefndin hefir sífelt rannsakað ítarlega vöruverð hjá kaupmönnum, og yfirleitt hefir það ekki reynst ósanngjarnt eftir innkaupsverði þeirra. Satt er það að vísu að einstöku sinnum hefir verð verið skrúfað upp í bili, einkum þegar skortur hefir verið á einhverjum vöruteg1 undum. Þegar slíkt hefir komið fyrir eyru verðlagsnefndar, hefir hún ávalt lagfært það, ef það hefir ekki verið komið í samt lag áður en henni hefir verið gert viðvart, eins og átt hefir sjer stað. Það hefir því fátt þurft að lagfæra hjá kaupmönnum. En hvaðan fá þeir vörur sínar með þessu geypiverði? Þeir fá þær yfirleitt ekki frá útlöndum fyrir eigin reikning, heldur kaupa þeir af stórkaupmönnunum. Þarna er það, sem skórinn kreppir að! Þarna þarf að kippa í tauminn!

Vil jeg svo mælast til þess við háttv. bjargráðanefnd þessarar deildar, að hún kynni sjer þau skjöl frá verðlagsnefnd þessu máli viðvíkjandi, sem liggja innan þinghúsveggjanna og hafa legið hjer frammi frá þingbyrjun, án þess að þeirra hafi nokkum tíma verið getið í prentuðum skjölum þingsins hingað til. Jeg vona, að þingmenn fari ekki svo heim, að þeir hafi ekki kynt sjer betur þessi skjöl. En þegar menn hafa kynt sjer þau, skal jeg tala betur við þá um þessi mál.