01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Frsm. (Björn Kristjánsson):

Eins og sjest á nál, leggur bjargráðanefnd til, að frv. þetta verði samþ. eins og það kom frá háttv. Ed., með svolítilli breytingu, að í staðinn fyrir það, að stjórninni skuli heimilt að ákveða, hve mikið skuli lagt á vöruna, komi: hve mikið megi leggja á í heildsölu.

Fyrsta breytingin, sem frv. gerir, er sú, að í lögunum um heimild fyrir landsstjórnina til ýmsra ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum er gert ráð fyrir, að þau standi meðan ófriðurinn stendur, en í frv. er ætlast til, að þau standi þangað til öðruvísi er ákveðið. Það getur ekkert verið á móti því, að þingið ákveði það sjálft, hve nær lögin skuli numin úr gildi, því að enginn veit, hve lengi ófriðurinn stendur eða hvort laganna muni þurfa við lengur eða skemur.

Þá er önnur breytingin sú, að leyfa stjórninni að banna innflutning á vörum til landsins. Þetta ákvæði á að miða að því að hefta aðflutning á vörum til landsins, sem menn geta verið án, meðan svo þröngt er um skipakost, að tvísýnt er, hvort nægilegar nauðsynjavörur fást fluttar. Þetta hefir nú auðvitað verið gert áður. Stjórnin hefir krafist þess, að skipaeigendur legðu fram skrá yfir þœr vörur, sem óskað hefir verið að fá fluttar með skipum þeirra, og hefir stjórnin ákveðið, hvað skyldi leyft að flytja af því, sem um var beðið. Þó að þessum „praxis“ hafi verið fylgt áður, þá er ekkert á móti því að ákveða hann með lögum,

Þá kem jeg að síðasta málsliðnum í þessari grein, að stjórnin hafi heimild til að ákveða, hve mikið skuli lagt á vöruna. Því virðist ofaukið, að þetta gildi yfirleitt meðan lög um verðlagsnefndir eru í gildi. Vill nefndin því binda þetta verðlag einungis við heildsölu, og bendir hún á í nál., að rjettast muni, að innflutningsnefnd hafi eftirlit með þessu, þar sem hún á kost á að sjá alla reikninga heildsalanna. Væntir nefndin þess, að háttv. deild samþykki þessa brtt. hennar.

Verið getur, að nefndin komi með frekari brtt. við frv. við 3. umr., eftir ósk hæstv. stjórnar. Stjórnin hefir óskað eftir heimild til þess að hafa frekara eftirlit með og jafnvel banna útflutning á innlendum vörum. En óráðið er enn þá, hvernig sú brtt. muni verða.

Jeg hefi svo ekki ástæðu til þess að ræða frekar um málið; það er ofureinfalt, og ræður nefndin háttv. deild til að samþykkja frv. með þessari breytingu.