01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Pjetur Ottesen:

Jeg get ekki fallist á brtt. háttv. bjargráðanefndar við frv. þetta. Það kemur skýrt í ljós í nál., að nefndinni hefir ekki þótt frv. nógu ákveðið, en jeg hygg, að nefndinni hafi ekki tekist vel að bæta úr þeim ágalla, með því að draga úr gildi og þýðingu frv. Háttv. nefnd hefði þá átt að kveða nánar á um þessi atriði, án þess að draga jafnframt úr gildi frv. En jeg get ekki betur sjeð en að frv. sje allskýrt eins og það er.

Nefndin vill einungis heimila stjórninni að ákveða verð á vörum í heildsölu. Stærsti heildsali hjer á landi er landsverslunin, og veit jeg ekki, hvort þetta á að skilja svo, að nefndinni þyki ástæða til þess að gera slíkar ráðstafanir gegn henni.

Þá mintist háttv. frsm. (B. K.) á að komið væri fram frv. um að afnema verðlagsnefndina, og meðan ekki væri útsjeð um, hvernig því frv. reiddi af, þætti nefndinni ekki þörf á, að heimildin nái lengra en þetta. Jeg vona nú, að verðlagsnefndin verði afnumin, án þess að settur verði á stofn nokkur verðlagsnefndarbróðir eða því um líkt, eins og háttv. bjargráðanefnd leggur til. Það hefir þegar sýnt sig endur fyrir löngu, að verðlagsnefnd orkar engu í þessu efni; það er því engu bætt, þó að svo slysalega tækist til, að frv. um afnám verðlagsnefndar næði ekki fram að ganga.

Þar sem því hefir verið haldið fram, að verðlagsnefnd gæti betur haft eftirlit með vöruverði heldur en innflutningsnefndin, þá er það mín skoðun, að innflutningsnefnd hafi einmitt miklu betri tök á því. En um hitt eru mjög skiftar skoðanir, hvort nauðsynlegt hafi í rauninni verið að skipa innflutningsnefnd. Það líta margir svo á, að starf hennar verði ekki svo erfitt eða umsvifamikið, að forstjórar landsverslunarinnar hefðu ekki getað bætt því við sig. En þar sem nefnd þessi er nú skipuð hvort sem er, ætti hún mjög auðveldlega að geta tekið að sjer og framfylgt — að svo miklu leyti sem hægt er að framfylgja — því ætlunarverki verðlagsnefndar, að hafa eftirlit með vöruverði, ekki einasta heildsalanna, heldur einnig smásalanna.

Það er alkunna, hve langt eftirlit verðlagsnefndar hefir náð. Getur verið, að því hafi verið ábótavant af þeirri ástæðu, að henni hafi ekki verið fengið nóg vald til þess, að hún gæti látið til sín taka. En svo víðtækt vald ætti innflutningsnefnd að hafa, og það því fremur, sem allir vörureikningar ganga í gegnum hennar hendur.

Jeg verð því að álíta brtt. nefndarinnar til skemda og vænti, að hún nái ekki fram að ganga.