01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Pjetur Ottesen:

Háttv. frsm. (B. K.) áleit, að ef hjer væri um alment eftirlit með vöruverði að ræða, þyrfti frv. að vera miklu nákvæmara og ítarlegra.

Jeg lít svo á, að þetta sje alls ekki rjett eftir frv.; ef það nær fram að ganga óbreytt, eins og það kom frá Ed., hefir stjórnin fulla og óskoraða heimild til þessa. Þá mintist háttv. frsm. (B. K.) á það, að stjórnin þyrfti t. d. að hafa heimild til þess að skipa menn sjer til aðstoðar og ráðuneytis. Þetta er ekki heldur rjett að mínu viti, því að landsstjórnin hefir fulla heimild til þess að haga þessu eftirliti á þann hátt, sem henni þykir best henta, og liggur þá beinast við að nota innflutningsnefndina til þessa eftirlits, þannig, að hún gefi stjórninni nauðsynlegar upplýsingar í þessu efni. Enda er aðstaða hennar til þess einkar hagstæð, þar sem allir reikningar yfir aðfluttar vörur ganga í gegnum hennar hendur. En jeg vil blátt áfram mótmæla því, að stjórnin fari að nota þessa heimild sína til þess að hleypa af stokkunum fleiri nefndum en þegar eru skipaðar. Það er komið nóg af því. Jeg held því, að þetta, að vilja einskorða heimild stjórnarinnar við heildsalana, sje bara til þess að hafa dálitla átyllu til þess að halda við verðlagsnefnd í einhverri mynd, en það eru nú bara bæirnir, sem eiga að búa að þeim verðlagsnefndum, eftir frv. háttv. bjargráðanefndar, því sem er hjer næst á dagskrá.