04.07.1918
Efri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Fjármálaráðherra (S. E.):

Að þessu sinni vil jeg að eins gera örstutta athugasemd.

Landsstjórnin hefir ekki enn þá borið sig saman um frv., en hún mun vinda bráðan bug að því. En jeg lít svo á, að það sje á engan hátt hægt fyrir landsstjórnina að ganga inn á frv. fyr en vissa er komin um sænsku síldina, eða þá síld, er við getum selt til Svíþjóðar, og hvaða verð við fáum fyrir hana. En þótt við fáum eins hátt verð fyrir hana og nefndin áætlar, þá er samt halli landssjóðs ekki lítill.

Nefndin gerir ráð fyrir því, að hægt sje að selja 25.000 tunnur af síld til Ameríku á 50 kr. tunnuna, en jeg veit ekki til, að það sje nokkur vissa fyrir því, að Bandaríkjamenn vilji kaupa síld af okkur. Það er von um það, en engin vissa. Hjer er því um áhættuspil að ræða, sem leikur á miljónum. Og þar sem nefndin ætlast til að selja síld hjer innanlands fyrir ½ milj. kr., þá er það með öllu óvíst; það veit enginn, hversu mikið eða lítið er hægt að selja hjer innanlands.

Þá er gert ráð fyrir því í 6. gr. frv, að landssjóður leggi út andvirði síldarinnar til útgerðarmanna, þótt hann hafi ekki selt síldina. Þetta atriði skiftir miklu fyrir landssjóð, enda þótt hann fengi upphæðina síðar.

Þessar ástæður eru nægar til að sýna, að stjórn og þing verður að gæta varúðar um málið, enda þótt mjer dyljist það ekki, að málið hefir mikla þýðingu fyrir marga menn í landinu. En menn verða að athuga það vel áður en þeir binda landssjóði slíka áhættu á herðar, einkum nú, er hann hefir í svo mörg horn að líta og þarf að binda mikið fje í landsversluninni.