04.07.1918
Efri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Magnús Kristjánsson:

Jeg leit svo á, að það mundu ekki verða miklar umræður um þetta frv. við fyrstu umr. þess, því að jeg tel víst, að háttv. deild sje svo vel mönnum skipuð, að ekki geti orðið verulegur ágreiningur um jafnaugljóst nauðsynjamál og þetta er, og jeg vona fastlega, að hún sje aldrei svo illa skipuð, að frv. þetta verði drepið. Það á ekki heldur að vera þörf á því að fara að tína fram allar þær ástæður, er liggja til frv., því að þær ættu að vera svo augljósar hverjum meðalgreindum manni, og allra síst ætti að vera þörf á því vegna hæstv. stjórnar.

Jeg var svo óheppinn, að jeg þurfti að svara kalli við landssímann, og var því fjarverandi meðan hæstv. fjármálaráðherra var að tala, og kom fyrst þegar hæstv. atvinnumálaráðherra var að enda ræðu sína. Jeg get því ekki svarað þeim, ef þess er þörf, en vænti, að háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) svari þeim, ef honum þykir ástæða vera til þess.

Háttv. 5. landsk. þm. (H. Sn.) ljet það í ljós, að hann vildi ekki vera kendur við þennan gallagrip, en þetta var stakur óþarfi fyrir hann og hlýtur að vera bygt á misskilningi. Á fundi bjargráðanefndarinnar fyrir tveimur dögum var það samþykt með yfirgnæfandi atkvæðafjölda að bera málið fram á þennan hátt, og það komu engin formleg mótmæli fram gegn því, hvorki frá háttv. 5. landsk. þm. (H. Sn.) nje öðrum, svo að það kom ekkert það fram, er gæfi ástæðu til þess að líta svo á, sem nefndin væri klofin, enda var hún það ekki.

Jeg heyrði, að hæstv. atvinnumálaráðherra sagði, að stjórnin hefði ekki enn þá tekið málið til athugunar (Atvinnumálaráðherra): Ekki til þess að mynda sjer ákveðna skoðun), en jeg vil leyfa mjer að vekja alvarlega athygli á því, að það er kominn tími til þess, því að málið þolir enga bið. Það er liðið svo langt á þingtímann, að það er nauðsynlegt að hraða málinu mjög, enda að afgreiða það með afbrigðum frá þingsköpum.

Frsm. (G. G.) hefir gert svo ljósa grein fyrir málinu, að jeg get farið fljótt yfir sögu. Jeg skal stuttlega víkja að andmælum háttv. 1. þm. Rang. (E. P.). Mig furðar ekkert á því, hvernig hann lítur á málið. Hann er að vísu sparnaðarmaður með afbrigðum, en að öllu má of mikið gera. Jeg vil ekki segja, að hann fari svo langt að spara eyrinn, en fleygja krónunni, en eitthvað í þá átt mætti segja um hann. Jeg hygg, að hann hafi ekki gefið sjer tíma til þess að athuga málið nákvæmlega, áður en hann snerist á móti því. Það sjest best á því, hve mikið hann talaði um áhættuna.

Áhættan er svo að kalla engin. Mjer finst leitt að þurfa að vera að margsegja það. Það ætti að vera svo augljóst. Jeg veit ekki, hvort jeg þarf að láta uppi öll þau rök, sem eru fyrir hendi, en frv. sjálft ætti þó að sýna, hve lítil áhættan er. Þar er ætlast til þess, að landið kaupi 100.000 tunnur af síld á 6 miljónir króna. Fram úr 6 miljónum kr. fer verðið ekki. Nú mun svo komið, að telja megi víst, að helminginn — 50 þús. tunnur — megi selja fyrir hátt á 5. miljón kr. Þá er eftir hinn helmingurinn, sem kostar landið ekki meira en rúma miljón. Enginn vafi er á því, að hægt er að selja töluvert í Ameríku. Jeg hirði ekki að tiltaka neina tunnutölu. Það þarf ekki að selja mikið þangað, til þess að fá alveg upp verð síldarinnar. Það, sem þá verður eftir, kostar landið ekkert. Hjer á við hið fornkveðna: „sjáandi sjá þeir ekki“, því að þetta ættu allir að geta reiknað. Jeg verð því að telja mjög óviðeigandi af háttv. 1. þm. Rang. (E. P. ) að tala um þetta sem gróðabrallsfyrirtæki, sem eigi að draga landssjóð fyrirhyggjulaust út í.

Þá mintist háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) á það, að jafnmikil ástæða væri til þess, að landssjóður hefði afskifti af hrossasölunni, eins og af síldinni. En á því tvennu er stór munur. Í fyrsta lagi lá fyrir hvatning til þingsins frá síldarútgerðarmönnum sjálfum, um að bera fram slíkt frv. sem það, er nú er fram komið. Var málið vel undirbúið af þeim. En jeg veit ekki til, að nokkur slíkur undirbúningur hafi átt sjer stað af hálfu hrossaeiganda. Þetta veldur talsverðum mun. Auk þess er ólíkt, hvað útgerðarmenn hafa lagt miklu meira fje en hrossaeigendur til atvinnu sinnar. Þeir hafa á örðugum tímum lagt stórfje í tæki og áhöld, sem nauðsynleg eru til atvinnurekstrarins Sama er tæpast hægt að segja um flesta hrossabændurnar. Þeir hafa komið upp hrossaeign sinni kostnaðarlítið, að minsta kosti sumir, með því að setja á guð og gaddinn að sumu leyti. Það er því ekki sambærilegt, hve mikið fje hvor framleiðendanna um sig hefir lagt í atvinnu sína, og auðvitað má sá síður við tjóni, sem meira hefir lagt til. Annars býst jeg við, þótt svona ólíku sje saman að jafna, að jeg gæti stutt hrossakaupafrv., sem væri jafnvel undirbúið og þetta. Það gæti verið gróðavon, eða rjettara sagt gróðavissa, fyrir landssjóð. Öll hræðsla við þetta er algerlega út í loftið.

Viðvíkjandi því, hvernig áætlað er í frv. að skifta ágóða, ef hann yrði einhver, skal jeg geta þess, að vel mætti breyta því ákvæði, ef það væri nauðsynlegt fyrir framgang málsins. Þess ber reyndar að gæta, að landssjóður hefir annan hagnað af þessum lögum en væntanlega ágóða; jeg á við útflutningstollinn, sem af síldinni yrði greiddur.

Eina hættan í þessu máli er sú, að þingið láti það afskiftalaust. Þá er bætt við, að ekki verði veitt meira en þessar 50 þúsund tunnur, sem vissa er fyrir að megi flytja til Svíþjóðar. En það eru að eins örfáir menn, sem mundu taka þátt í veiðunum, ef svo yrði. Þeir mundu græða stórfje, en allur þorri síldveiðimanna mundi verða út undan. Þegar ætti að fara að jafna niður þessum 50 þús. tunnum, mundi svo örlítið — á að giska 100—200 tunnur — lenda í hlut þeirra, sem að eins halda úti einum bát. Smærri útgerðarmenn, sem hafa verið að undirbúa atvinnurekstur sinn undanfarin ár við lítil efni, mundu stórtapa. Þetta vil jeg biðja háttv. þing og stjórn að íhuga gaumgæfilega, áður en hún legst á móti frv. Þeir, sem í húsaleigumálinu þóttust bera hag hins minni máttar svo mjög fyrir brjósti, ættu ekki síður að gera það í þessu máli. Hjer er líka verið að hjálpa þeim, sem nauðulega eru staddir. Jeg vænti þess, að menn sjái, er þeir hugsa sig betur um, að með frv. er góður grundvöllur lagður fyrir framkvæmdum í þessu máli, þótt vera kynni ástæða til þess að taka einstaka smávægilega brtt. til greina.

Jeg get ekki stilt mig um það að fara nokkrum orðum um þá hlið málsins, hve mikið vinst, ef frv. verður samþykt. Þá verður stórfje hagnýtt í landinu, sem getur farið forgörðum, ef málið er látið afskiftalaust.

Í tunnum, sem nú eru til í landinu, standa 6 miljónir króna. Hvert ár, sem líður svo, að þær verði látnar liggja ónotaðar, veldur stórkostlegu vaxtatapi. Það mun því engin eign í landinu undirorpin jafnhröðu verðfalli. Þá eru 3 miljónir króna í salti. Að vísu væri hægt að nota saltið til annara hluta, en þá liggja 6 miljónirnar, sem í tunnunum liggja, ónotaðar. Saltið og tunnurnar verða því að fylgjast að. Þá er skipastóllinn; hann mun að minsta kosti vera alt að 5 milj. kr. virði. Samanlagt verða þetta 14 miljónir kr. Þá eru enn ótaldar bryggjur, geymslupláss, veiðarfæri, ýmiskonar áhöld o. s. frv. Hjer mun því vera um 15—20 milj. „kapital“ að ræða, sem fer að nokkru leyti forgörðum, ef ekki er hægt að selja að minsta kosti 100 þús. tunnur af síld.

Margt fleira mætti segja, en að sinni ætla jeg að láta staðar numið. Upplýsingar þær, sem jeg hefi gefið, eru hárrjettar. Það er ekki fyrir það, að jeg hefi komið fram með þær, að jeg haldi, að það þurfi að halda langar meðmælaræður með frv., heldur hefi jeg gefið þær, ef einhverjir deildarmenn skyldu vera ófróðir um þetta mál. Læt jeg svo lokið máli mínu með þeim ummælum, að jeg tel sóma deildarinnar í veði, ef frv. verður ekki samþykt með öllum atkvæðum.