04.07.1918
Efri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

En í sambandi við það taláði hann um framboð, og skildi jeg ekki, hvort hann átti þar heldur við framboð frá Svíum eða frá þeim,sem síldina ætti að veiða. (Atvinnumálaráðh.:

Auðvitað hið síðara). En þá get jeg ekki skilið, hvernig á að gera framboð um óveidda síld.

Þá mintist hæstv. fjármálaráðherra á óvissuna um framboð Svía, en það kom mjer á óvart, að hann vissi þar ekki betur, þar sem svo má segja, að vissa sje fyrir, að þeir bjóði hœrra en bjargráðanefndin áætlar í frv. Og mjög sterkar líkur eru fyrir því, að útflutningurinn verði ekki annmörkum bundinn.

Útlegg landssjóðs mintist hann einnig á, og þykir mjer það eðlilegt og rjett, að hann taki það til athugunar, þar sem það er varhugavert að binda honum þunga bagga, þegar þess er gætt, í hversu mörg horn hann hefir að líta.

En því til málsbóta er það, að fje það, sem fæst fyrir síldina, sem seljast á til Svíþjóðar, getur komið inn áður en landssjóður borgar síldveiðamönnunum. Og fje þetta er áætlað 4.250.000 kr., og hugsanlegt er, að síldin seljist því betur áætlun, að nemi 30.000 kr.

Þess er líka að gæta, að fje þetta á að taka hjá þeim, sem hægast er að fá fje hjá, sem sje bönkunum. Þetta verður því ekki annað en að taka úr einum vasanum og láta í hinn.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) talaði um, að salan til Svía væri enn þá óviss. Honum kann að vera nokkur vorkunn, þótt hann haldi það, en jeg á ekki eins hægt með að fyrirgefa háttv. 5. landsk. þm. (H. Su.) framkomu hans í þessu máli, því að hann veit vel, að þetta er rangt. Og þegar hægt er að segja með fullum rökum um einn þm., að hann tali móti betri vitund, þá er það hið mesta skammaryrði, sem yfir höfuð er hægt að segja um nokkurn mann.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) setti hrossasöluna í samband við þetta mál og svo sem hliðstæða við það. En hrossasalan er að eins ein lítil grein landbúnaðarins og í mörgum hjeruðum orðin til skammar og skaða fyrir landið. Svo margar horbykkjurnar eru búnar að hrökkva upp af vegna þess, að menn hafa sett á guð og gaddinn, eins og komist er að orði, til þess svo að geta tekið peninga fyrir alls ekki neitt, selt þau hrossin, sem lifað hafa af harðindin, án þess að þurfa annað fyrir þeim að hafa en að sækja þau úr högunum. Slíkt og þvílíkt hafa síldarútvegsmenn ekki getað gert; það sýndu tölur háttv. þm. Ak. (M. K.). Síldarútvegurinn hefir kostað miljónir, en í hrossaeigninni liggur mjög lítið „kapítal“ frá framleiðenda hálfu, en mikið fje ef selst. Og jeg vil, að þingið láti þrifa til í landinu með hrossasölunni, ef unt er. Og að leggja það að jöfnu, að kaupa 100.0000 síldartunnur og að kaupa þúsund hross, nær sem sagt engri átt. Ef landsstjórnin tekur t. d. við 100.000 tunnum af síld á höfn, þarf kaupandi að borga 5 aura í grunnleigu á tunnuna til nýárs. Hvernig ætti nú að haga þessu með hrossin? Við skulum segja, að landsstjórnin tæki við ca. 1.000 hrossum á eigin ábyrgð, t. d. frá 1. desember. Ætli hún vildi taka þau fyrir vanalega grunnleigu, 5 aura fyrir hrossið, eins og fyrir eina tunnu af síld? Jeg sje sannast að segja ekki, hvernig hægt er að líkja saman hrossasölu og síldarsölu.

Áhættuna við kaupin á síldinni hefir háttv. þm. Ak. (M. K.) tekið til athugunar, svo að jeg þarf ekki að fjölyrða um það atriði. Jeg neita því ekki, að þetta sje nokkur áhætta. En jeg skil ekki í því, að jafnstór þingmaður og háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) er skuli fara að koma með það, að við eigum ekki að hjálpa síldarútvegsmönnum nema áhættulaust sje. Því neitar þó enginn, að landið í heild sje færara um að bera áhættuna en ein einstök atvinnugrein.

Svo var minst á gróðann, og vildi háttv. 1. þm. Rang. (E. P.), að landssjóður fengi hann allan. Bjargráðanefnd áleit nú, að við ættum ekki að „spekúlera“, — sem líka háttv. þm. (E. P.) virðist vera á móti —, heldur að eins hjálpa, En það kalla jeg að landssjóður geri, ef hann á bæði að hafa áhættuna og allan gróðann. En hjer er að eins að ræða um það, að atvinnuvegurinn sleppi að skaðlausu, en til þess þarf hallinn, ef nokkur verður, að skella á þjóðinni sem heild.

Jeg er annars hálfhissa, hvernig háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) hefir talað af miklum móði móti þessu máli. Ætli það hafi getað haft nokkur áhrif á hann, að háttv. 5. landsk. þm (H Sn.) fór af stað? Mjer þykir það mjög leiðinlegt, að hann skyldi geta gert svo lítið úr sjer, að fara út í aðra eins hreppapólitík eins og hann gerði. Það er ekki sjálfsagt að rísa strax upp til andmæla, ef eitthvert mál kemur fram, sem snertir annað en landbúnaðinn. Samkepninni verður að vera stilt í hóf, og við verðum að styðja hver annars atvinnnvegi Hann (E. P) fór t. d svo langt, að láta sem hann hneykslaðist á þeim orðum í greinargerðinni, að álitsskjal útvegsmanna ætti að vera og hefði verið bjargráðanefndum þingsins til eftirbreytni, og vildi af því draga þá ályktun, að það væru í raun og veru þessir menn, sem ljetu bjargráðanefnd koma með málið inn í þingið. En nú vil jeg spyrja þm. (E. P.): Hvað var eðlilegra en að við í bjargráðanefnd bygðum frv. á áliti og skýrslum þessara manna, sem öllum fremur höfðu skilyrðin til þess að geta talað um málið af reynslu og þekkingu? Síldarútvegsmenn hafa aldrei komið með frv ; við í bjargráðanefnd höfum samið það, og frá okkur er það hingað komið. Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) er altof vel gefinn maður og góður þingmaður til þess að hlaupa undir jafnauðvirðilegt stýri og þetta er. (E. P.: Þm. (G. G.) verður að gá að því, að jeg er dauður). Jeg vona, að þm. (E. P.) geti risið upp aftur við 2. umr. málsins.

Jeg skal bæta því við það, sem jeg sagði áðan um ágóðann, að þar sem í frv. er gert ráð fyrir, að 3/4 væntanlegs hagnaðar gangi til seljendanna, en 1/4 í landssjóð, þá var það upphaflega meiningin í nefndinni, að helmingurinn gengi í landssjóð. En svo breytti hún því vegna þess. að, eins og jeg er þegar búinn að taka fram, þá óskum við þess ekki. að landssjóður græði, heldur viljum við að hann sleppi hallalaus. Er sá vilji okkar sannar það líka, að við ætlumst ekki til þess, að farið sje að „spekúlera“ með fje landsins.

Þá efaðist háttv. þm. (E. P.) um það, að nokkuð yrði hægt að selja til Ameríku í ár af síld. Nú fór síldarsalan þannig í hitt eð fyrra, að Ameríkumenn greiddu 65 kr. fyrir tunnuna nettó, og það er áreiðanlegt, að við höfum leyfi áfram til að flytja síld til Ameríku. Englendingar hafa alls ekki bannað það, heldur hafa þeir að eins sagt, að þeir vildu ekki binda sig við að kaupa neina síld. Það væri líka óskiljanlegt, þar sem Ameríkumenn selja matvöru til okkar, ef þeir vildu ekki jafnkjarngóðan mat og síldin er í staðinn, einkum þegar þess er gætt, að íslensku skipin ganga þangað hálftóm, svo að hægt væri að búast við því, að „fragtin“ á síldinni þangað yrði ódýr.

Þá var háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) eitthvað að tala um það tvent, að yrði frv. að lögum, þá yrðu það auðmennirnir, sem mestan styrk hefðu af því, og — að það mætti vel hafa fiskveiðar í stað síldveiðanna. Jeg hjelt nú, að jafnskynsamur maður og háttv. 1 þm. Rang. (E. P.) er hlyti að skilja það og sjá, án mikillar fyrirhafnar, að það er ekki auðgert að breyta síldarútvegi í fiskútveg á skömmum tíma. Öllum veiðarfærum verður að farga og útvega önnur í staðinn, tunnur geta ekki komið að neinu gagni við þorskveiði og allur rekstur er gerólíkur. Þá var hitt atriðið, að auðmenn gætu notað sjer þessa ráðstöfun og haft einhvern hagnað af henni. Nú, þetta getur hugsast. En er það ekki nokkuð ísjárvert, að á sama þinginu og verið er að leggja háan gróðaskatt á efnamennina þá skuli það vera eins og að koma við opið sár hjá sumum þingmönnum, ef þeir sjá einhvern möguleika til, að þessir efnamenn geti grætt eitthvað áfram. Hjer kemur fram hrein og bein mótsögn. Þingið vill fá skatt af gróða landsmanna. og um leið á að fyrirmuna mönnum að græða meira. Ætli það væri ekki betra fyrir landið, að þeir græddu meira, svo að hægt væri að hafa áframhaldandi gróðaskatt.

Þá er að minnast á það fangaráð háttv. 1. þm. Rang. (E. P.), að láta landsstjórnina jafna niður verðinu, alveg eins og gert var með kjötverðið. Þetta væri líka hægt að gera, ef hægt væri að reikna út, hve margar tunnur af síld mundu veiðast á sumrinu, eins og hægt er að reikna út, hve margar tunnur af kjöti muni verða til í landinu árlega. Fyrst buðu nú Englendingar í fyrra ákveðið verð, 120 kr., fyrir tunnuna, svo að allir gátu fengið sama verð. Svo var kjötnefndin sett á stofn, sem hafði auðvitað fastan grundvöll að byggja á, en ekki aðra eins óvissu og hjer er um að ræða. Ef jeg á 10—12 kindur, þá þarf ekki að ganga að því gruflandi, en síldveiðamaðurinn getur ekki sagt neitt um það, hve margar tunnur hann veiðir. Kjötverðið er hægt að jafna undir eins fyrirfram, af því að við vitum, hve margt sauðfje er til í landinu og hve mörgu er lógað að meðaltali á hverju hausti. Það má líka afla sjer upplýsinga um það — nákvæmra upplýsinga — hve miklu bændur ætli að lóga af fje sínu að haustinu. En hvaða árangur mundi það hafa, ef landsstjórnin segði nú: Komið allir til mín og segið mjer, hve margar tunnur af síld þið ætlið að veiða í sumar? Ætli flestum yrði ekki erfitt um svarið? Og samt hugsar háttv. þm (E. P.), að hægt sje að jafna verðinu niður — fyrirfram.