06.07.1918
Efri deild: 59. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Magnús Kristjánsson:

Við flm. höfum komið okkur saman um það, að sama sje hver okkar svarar, ef eitthvað það kæmi fram, sem svara þyrfti, og vona jeg, að hæstv. forseti sjái sjer fært að telja menn ekki hafa talað sig dauða, eftir venjulegum reglum, ef svars yrði vant.

Hæstv. fjármálaráðherra hefir komið fram með ýmislegt, sem hann telur nægilegar ástæður til þess að fresta málinu, eða ef til vill til þess, að því verði að fullu og öllu stungið undir stól.

En til þess, hvort málið þoli bið, er því að svara, að útgerðartíminn stendur fyrir dyrum, og verði málið ekki útkljáð fyrir miðja næstu viku, þá er málið sjálft þýðingarlítið og sum ákvæði frv. þýðingarlaus.

Eftir ákvæðum frv. á að tilkynna út um land alt, þegar í stað, hvers menn megi vænta í þessu efni, og þeir að segja til, sem viðskifti vilja eiga fyrir miðjan þennan mánuð.

Málið þolir því enga bið, og þess vegna hefi jeg óskað þess, að það yrði hjer einnig til 3. umr. í dag. Auk þess er einn eða fleiri, af þeim, sem mest afskifti hafa haft af málinu, á förum.

Þá var það annað, sem hæstv. fjármálaráðherra lagði mikla áherslu á, að hann sæi sjer ekki fært að styðja málið, nema verðlagsákvæðið væri lækkað og gjaldfrestur landssjóðs lengdur.

Það má sjálfsagt kalla þetta virðingarverða varfærni. En það verður að gera fleiri kröfur til hæstv. fjármálaráðherra en varfærniskröfur, t. d. kröfur um víðsýni og þekkingu og fleiri góða hæfileika. Með þessu er þó ekkert um það dæmt, að hve miklu leyti þeir hæfileikar eru hjer til staðar.

En jeg verð að segja það, að útreikningur hæstv. fjármálaráðherra var ekki ábyggilegur, svo að jeg segi ekki meira. Hann telur enga tryggingu fyrir sölu til Svíþjóðar og því síður fyrir ákveðnu verði. Þessu verð jeg að leyfa mjer að mótmæla. Jeg þori að fullyrða, að stjórnin getur selt til Svíþjóðar 50.000 tunnur og það með ákveðnu verði.

Jeg hefi þar fyrir mjer yfirlýsingu stjórnarinnar sjálfrar, að henni hafi boðist 90 aurar í kg. og að salan færi fram hjer á staðnum. Nú er gert ráð fyrir, að það kosti 6.000.000 kr., sem stjórnin kaupir. En fyrir síldina til Svíþjóðar er hægt að fá 4½ miljón kr.: þá er það 1½ miljón kr., sem vantar, og þarf það að fást fyrir afganginn, sem er 50.000 tunnur. Verðið á því verður þá 30 kr. tunnan, og verður það að teljast fullvirði þess, sem á vantar, að landssjóður fái sitt. Tunnurnar sjálfar er óhætt að reikna á 20 kr. og síldina þá að eins á 10 kr., og það tel jeg víst, að aldrei geti svo illa farið, að hún reynist ekki þess virði.

En af þessu sjest, að áhættan er í versta falli engin.

En geri maður nú ráð fyrir, að betur takist og að til Ameríku seljist í minsta lagi 20 þús. tunnur á 50 kr. hver, þá vantar að eins ½ miljón kr., og fyrir því fje standa 30 þús. tunnur. Þá kostar hver þeirra 17 kr., og er það tæplega tunnu virðið.

En ef slíkt á að teljast ábætta fyrir landssjóð, þá er ástandið verra en jeg hugði. Ef hann telst ekki fær um að eiga 30 þús. tunnur af síld, sem varaforða í landinu, þá er kjarkur þingsins á þrotum og neyð fyrir dyrum.

Jeg verð því að álíta, að mótbárur hæstv. fjármálaráðherra sjeu ekki svo veigamiklar, að ástæða sje til þess að hika við málið.

En væri þessi ótti hans, sem fram hefir komið, á rökum bygður, þá ætti honum þó að vera það ljóst að ef svo illa færi, að riftað yrði samningunum við Svía, sem jeg tel engin líkindi til, þá er þó nógur tími til þess að stöðva málið í Nd.

Þetta er því, ef ekki yfirskynsótti, þá að minsta kosti ástæðulaus ótti.

En hitt vil jeg benda á, að ef samningarnir við Svía komast ekki á, þá er það stjórninni að kenna, því að hún hefir haft tækifæri til þess að gera þá. Því hefir verið slegið fram sem ástæðu, að beðið væri eftir hærra verði, en jeg lít svo á, að rjettast væri að taka tilboðinu strax. Þá er áhættan engin.

En nú vil jeg skoða mál þetta á annan veg, úr því að farið er að ræða það svo mjög. Hingað til hefir að eins svartari hliðin verið skoðuð.

En skoði maður það frá hinni hliðinni, þá eru meiri líkur til þess, að ekki að eins útvegsmönnum og almenningi verði bjargað úr vanda, heldur græði landið einnig stórfje.

Setjum svo, að þessar 50 þús. tunnur flyttust allar út og seldust fyrir 50 kr. hver. Það gerir 2½ miljón kr., eða með öðrum orðum þá hefir græðst 1 miljón kr. Það getur líka hugsast, að öll síldin seldist fyrir sama verð, ef Svíar gætu komist að rýmri samningum um útflutning hjeðan. Þá fengjust alls 9 miljónir kr. fyrir síldina, og væru þá 3 miljónir græddar.

Þetta er eins líklegt, og má eins sýna fram á það með fult eins góðum rökum og hitt, að landssjóður skaðist.

Jeg þykist því hafa sýnt fram á það, að óttinn er ástæðulaus og sprottinn af of mikilli varfærni, og færi betur, að honum yrði útrýmt áður en málið verður tafið um of, eða ef til vill felt.

Um borgunarskilmálana skal jeg ekki fara mörgum orðum, enda er það atriði smávægilegt.

En nú geta samningarnir við Svía orðið svo, að þeir borgi alt fyrir októberlok, og er það þá ekkert vandamál fyrir landssjóð að greiða 3 miljónir kr., ef hann fær 4½ miljón kr. inn.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) hefir einnig sýnt fram á það, að ótti við þetta atriði er ástæðulaus, þar sem hjer er í rauninni ekki um annað að ræða en tilfærslu í bönkunum.

En þótt við tökum versta tilfellið og segjum, að greiðsla fari ekki fram nógu snemma, þá er jeg sannfærður um það, að nógir vegir verða, þar sem um svona mikið verðmæti er að ræða. Bankarnir eru ekki svo þröngsýnir, að þeir láni ekki út á það. Og þá eru enn þá fleiri leiðir, sem jeg hirði ekki um að nefna, en gæti bent hæstv. stjórn á, ef hún teldi sig vera í vanda.

Þá er eftir að líta á málið enn frá einni hlið. Skal jeg að vísu vera stuttorður um hana og varast að deila á háttv. þm., því að jeg álít, að þetta mál sje alt of mikilvægt til þess, að hnútukast megi eiga sjer stað hjer í deildinni. En þessi hlið málsins er sú, hvernig horfir við, ef þingið gerir ekkert í málinu.

Síldarútvegsmenn skiftast í 2 flokka. Fyrri flokkurinn er stóreignamenn. Þeir eru sárfáir, svo sem 5 eða 6; þeir eiga tunnur fyrirliggjandi í tugum þúsunda og hafa að öllu leyti tæki til þess að veiða þessar 100.000 tunnur og meira til. Þeirra hagur væri, að þing og stjórn skildi ekki sitt ætlunarverk. Þeim væri stórhagur, að þingið feldi frv., því að þeim væri þá lagður upp í hendurnar stórgróði. Við skulum segja, að þeir veiddu þessar 1000.00 tunnur einir, og ef gera má ráð fyrir 90—100 kr. fyrir tunnuna, þá yrðu það 3—4 miljónir kr., sem yrði gróði örfárra manna. Ef svo rættist úr með útflutninga, og þeir veiddu þessar 100.000 tunnur upp á eigin ábyrgð, þá mundu þeir græða enn meira. Aðaltilgangur þessa frv. er nú einmitt sá, að koma í veg fyrir það, að stórgróði safnist á hendur einstakra manna. Og það er augljóst, að verði ekki veiddar nema þessar 50.000 tunnur í sumar, þá verða það að eins örfáir stórgróðamenn, sem fá veitt þær og selt.

Í sambandi við þetta vil jeg loks geta þess, að verði brtt. hæstv. fjármálaráðherra samþyktar, þá tel jeg málinu svo spilt, að mjer þykir þá ekki miklu skifta, hvort málið kemst í gegn eða ekki.

Hinn flokkurinn, af þeim tveimur, sem jeg áður gat um, nefnilega smáútgerðarmennirnir eða frumbýlingarnir, er miklu fjölmennari en sá fyrri, og eins og áður hefir verið bent á, ríður þeim flokknurn lifið á því, að hægt sje að halda áfram útgerðinni. Þessir menn sitja uppi með stórskuldir vegna þess, hve atvinnuvegur þessi hefir gengið skrykkjótt nú síðustu árin.

Árið 1916 var útvegurinn ekki rekinn með nærri nógu miklum krafti vegna þess, að Englendingar settu mönnum þá stólinn fyrir dyrnar með tunnur o. fl. Árið 1917 brást síldaraflinn svo að segja alveg. Þar af leiðandi standa smærri útgerðarmenn á heljarþröminni fyrir óviðráðanleg atvik.

Þess vegna álít jeg, og ætla að vera svo djarfur að segja það, að þetta sje langþýðingarmesta málið, sem enn hefir fyrir þingið komið, og á því veltur það, hvort þing og stjórn á að halda fullum heiðri eða ekki.