06.07.1918
Efri deild: 59. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Það getur vel verið, að háttv. flutningsmönnum frv. heföi þótt vel við eiga, að afstaða stjórnarinnar, nú á þessu stigi málsins, gæti verið skýr og ákveðin, en jeg álít tæpast hægt að ætlast til þess. Málið er svo að segja nýlagt fyrir þingið, og án efa það stórmál, að nokkurn tíma þarf til þess að átta sig á því, svo að vel sje.

Flutningsmenn frv. hafa haft mikinn undirbúningstíma til að kynna sjer alla málavöxtu; erindrekar frá útgerðarmönnum hafa verið hjer og túlkað mál sitt fyrir þeim. Það er því síst að furða, þótt þeir tali um málið með meiri öruggleik en þingmenn og stjórnin. Málið er stórt, eins og allir vita, og líka er hjer lagt inn á nýja braut, sem við 1. umr. var kölluð „spekúlations“-braut og ekki hefir áður verið farin hjer í þinginu. Verði þetta frv. nú að lögum, er með því skapað nýtt fordæmi, en þegar svo. er, að sköpuð eru ný fordæmi af þinginu, þá veitir ekki af sem bestum undirbúningi, eigi ekki fremur ilt en gott af að hljótast. Af þessu leiðir, að mjer finst háttv. þm. Ak. (M. K) ganga nokkuð langt í kröfum sínum um skjótan framgang málsins, þar sem bann leggur svo mikla áherslu á, að málið fái bæði 2. og 3. umr. í dag. Það er til of mikils mælst, og jeg fyrir mitt leyti get ekki verið með því. Enda ætlar fjármálaráðherra að koma með brtt., og þótt háttv. þm. Ak. (M. K.) ljeti svo, sem þær brtt. yrðu ekki til þess að bæta frv., heldur þvert á móti, þá getur hann tæpast neitt um þetta sagt fyr en brtt. eru fram komnar. Það er ekki lengra en síðan í fyrradag, að málið kom hjer inn í deildina, og þótt það biði til mánudags hjer, þá hefir það samt hraðari gang en margt annað, og mjer finst háttv. flutningsmenn vel geta sætt sig við það, að að eins 2. umr. fari fram í dag.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) var að tala um samningana við Svía og kom þar með eitt atriði, sem hann taldi geta orðið þungt ásökunarefni á stjórnina, ef rættist. Hann ljet nefnilega í ljós, að ef samningarnir við Svía væru ekki enn útkljáðir, þá væri það stjórninni hjer að kenna, og mjer skildist á honum, að það væri ábyrgðarhluti fyrir stjórnina, ef hún hefði þegar hafnað boði þeirra eða ætlaði sjer að hafna því. Jeg veit ekki, hvort jeg hefi misskilið háttv. þm. (M. K.), en jeg vil taka það fram, að ekkert hefir verið gert því til hindrunar, að boð Svía gæti gengið fram og erindrekar vorir geti gengið að því.