12.06.1918
Efri deild: 42. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Fjármálaráðherra (8. E.):

Hv. framsm. (S. F.) tók það rjettilega fram, að í háttv. neðri deild komu fram tvær stefnur í þessu máli. Önnur var stefna stjórnarinnar, að veita takmarkaðan styrk, 5 kr. á mann, bundinn við 10 króna framlag frá sjálfri sveitinni. Hin var stefna nefndarinnar, að veita lán, sem færu ekki fram úr 10 krónum á mann. Eftir brtt., sem fram voru komnar frá nefndinni við fyrri hluta þessarar umræðu, skyldi fyrst veita 10 kr. lán á mann, en síðan ótakmarkað lán og ótakmarkaðan styrk. En nú er komin fram ný brtt. frá sömu nefnd, þess efnis, að fyrst verði veitt 10 kr. lán á mann, síðan 5 kr. styrkur og ótakmarkað lán. Svo hefi jeg skilið brtt., og vil jeg skjóta því til háttv. framsm. (S. F.), hvort þetta sje ekki rjett. (Frsm. S. F.: Þetta mun ekki alls kostar rjett skilið hjá hæstv. fjármálaráðh. Hugsun nefndarinnar er, að fyrst skuli veitt 10 kr. lán á mann, síðan styrkur og lán, og standist það á endum. En þar sem 5 kr. hámark er sett fyrir styrknum, þá nær það líka til lánsins, því að hvorttveggja fjárhæðin á að vera jafnhá). Jeg skal ekkert um það segja, hvort þetta muni vera rjettur skilningur á brtt.; eini skilningurinn, sem hægt er að leggja í hana, er það ekki. Þó skal jeg í útreikningi mínum taka tillit til þessara skýringa. Fyrst er 10 kr. lán á mann; það verða 900 þús. kr. Svo er 5 kr. styrkur á mann; það verða 450 þús. kr. Þá er jafnmikið lán, 450 þús. kr, ef skilningur háttv. framsm. (S. J.) er rjettur. Lánin nema því 1.350 þús. kr. og styrkurinn 450 þús. kr., samtals 1.800.000 kr.

Ef sá skilningur, er jeg fyrst nefndi, er lagður í brtt., verður fjárhæðin enn meiri. Það er skoðun stjórnarinnar, að fjárhagur landsins leyfi ekki með nokkru móti, að svona langt sje gengið. Það má búast við, að þessum lánum yrði haldið áfram meðan stríðið stendur; fjárhæðirnar mundu ekki fara lækkandi eftir því, sem stríðsárin bætast fleiri við, heldur þvert á móti hækkandi. Það gæti því orðið dálagleg summa, sem landssjóður yrði að snara út á næstu árum, ef þessi brtt. nefndarinnar yrði samþykt. Auk þessa er jeg sannfærður um, að frv., svona breytt, ætti sjer einkis lífs von í háttv. Nd. Brtt. nefndarinnar þar voru feldar, af því að þær þóttu ganga of langt, og gengu þær þó síst eins langt og þessar.

Niðurstaðan, ef brtt. verða samþyktar, yrði að líkindum sú, að frv. strandaði, því að nú er mjög farið að líða á þingtímann. Yrðum við þá að búa við þau lög, sem nú gilda, að minsta kosti eitt ár enn, og væri það illa farið.

Legg jeg svo eindregið á móti því, að brtt. nefndarinnar verði samþyktar, og lýk máli mínu í þeirri von, að frv. verði ekki látið hrekjast á milli deildanna, því að það er sannfæring mín, að það mundi að líkindum ríða því að fullu, vegna þess, hve áliðið er orðið.