08.07.1918
Efri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Atvinnumálaráðherra (S. J):

Mjer þykir vænt um að frv. kom ekki til 3. umr. fyr en í dag Vænti jeg, að því vegni nú betur en ella hefði orðið.

Brtt. á þgskj. 467 get jeg vel fallist á. Eftir á mun í alla staði auðveldara að ráðstafa ágóðanum, ef hann verður einhver. Treysti jeg næstkomandi þingi fyllilega til þess að ráða með sanngirni fram úr því.

Tvær brtt. hafa komið fram viðvíkjandi greiðslu á verði síldarinnar. Mun jeg fyrir mitt leyti styðja brtt. á þgskj. 468, frá fjármálaráðherra. Mjer virtist háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) ekki skilja þá tillögu alveg rjett. Virtist mjer hann halda, að samkvæmt henni yrði ekkert greitt af fyrri helmingnum fyr en um árslok, og síðari helmingurinn allra fyrst 1. júlí. En svo er ekki, heldur á alt að vera borgað 1. júlí, en verður vitanlega borgað jafnóðum og andvirði síldarinnar innborgast til landssjóðs. Að vísu fer brtt. háttv. þm Ísaf. (M T ) meðalveg, en sá meðalvegur mun ekki heppilegastur fyrir landssjóð. Ef hann verður farinn, verður landssjóður ef til vill að leggja út 2 miljónir kr. áður en einn eyrir er innborgaður. Það virðist sjálfsagt að samþykkja brtt fjármálaráðherra, því að ekki verður sjeð, að það velti á miklu fyrir síldarframleiðendur.